Áfram sól en von á næturfrosti

Sólin lætur sjá sig næstu daga.
Sólin lætur sjá sig næstu daga. mbl.is/Styrmir kári

Veður hefur verið með besta móti á höfuðborgarsvæðinu í dag og búast má við ágætu veðri þar næstu daga. Íbúar norðan og austanlands geta einnig notið sólarinnar á næstunni.

„Það lítur út fyrir að í næstu viku verði ágætt september veður norðan og austanlands,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.

„Það er alltaf hægt að finna einhvern sem er ekki ánægður með þetta og hitt. Það verður rólegheitaveður um allt land á morgun, mánudag og þriðjudag,“ segir Björn þegar blaðamaður spyr hvort íbúar sunnan og vestanlands megi geri ráð fyrir áframhaldandi blíðviðri.

„Það má búast við því að skil komi upp að landinu vestanverðu á miðvikudag og í framlandinu verða vestanáttir og skúrir út vikuna hérna vestantil.“

Björn segir að von sé á næturfrosti inn til landsins. „Það er vona á því norðan og austanlands, enda er ekki nema þriggja stiga hiti þar núna. Einnig gæti orðið næturfrost niður við jörðu á Suðurlandi og spurning hvort ber myndu skemmast við það. Þetta er samt aðallega inn til landsins fyrir norðan og austan.“

Hann bendir á að kalt hafi verið í höfuðborginni í morgun. „Lágmarkið við jörð hérna í Reykjavík í morgun var rétt undir frostmarki. Það var léttskýjað, logn og lítill vindur. Þá streymir varminn út í geim þannig að það gæti alveg gerst aftur í nótt enda verður hæglætisveður seint í nótt.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert