„Við getum tekið á móti mun fleiri en 50“

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir framlag íslenskra stjórnvalda gagnvart flóttamönnum eiginlega til skammar. Fram hefur komið að Íslendingar ætli að taka á móti 50 flóttamönnum og þykir Elínu það allt of rýrt og segir að tíföld sú tala væri nær lagi.

Elín fjallaði um málið á Facebook í dag.

Hún segir það skyldu okkar að bregðast við þeim hræðilegu atburðum sem eiga sér nú stað erlendis. „Við verðum að bregðast við, þjóðir eins og Ísland, og hjálpa. Ég þekki málið ágætlega því ég skrifaði bók um konu sem kom hingað úr stríðinu í Júgóslavíu. Þar lýsti ég því hvernig það að komast hingað þýddi alveg nýtt líf fyrir fjölskyldu hennar. Þau eru Íslandi ævinlega þakklát og algjörir fyrirmyndarborgarar,“ segir Elín við mbl.is.

„Ég mun taka málið upp á Alþingi og innan þingflokks Sjálfstæðismanna. Ég hafði ekki heyrt neitt um þessa ákvörðun um fjöldann fyrr en ég las um hana,“ segir Elín, spurð að því hvernig hún muni beita sér í málinu.

Hún bendir á að ef hennar hugmynd myndi ná fram að ganga værum við samt að taka á móti færri flóttamönnum en mörg önnur lönd. „Þá værum við ennþá eftirbátar landa í kringum okkur. Við erum að tala um flóttamenn sem koma frá stríðshrjáðum svæðum eins og í þessu ástandi sem ríkir. Við þurfum að bregðast við af skörungsskap við þessum mesta flóttamannastraumi síðan í síðari heimsstyrjöld.“

Elín segir að Ísland verði að geta boðið flóttamönnum upp á mannsæmandi aðstæður. „Ég veit það í mínu hjarta að við getum tekið á móti mun fleiri en 50.“

Færsla Elínar í heild sinni:

Þær ógnvænlegu fréttir hafa borist að um 70 flóttamenn þar af nokkur börn hafi fundist látin flutningabíl í Austurríki. Á sama tíma birtast myndir á netinu daglega af líkum barna sem drukkna hafa í Miðjarðarhafinu á flótta undan ógnarástandinu sem ríkir í Norður-Afríku. Stjórnvöld í Evrópu leita nú allra leiða til takast á við hinn gríðarlega flóttamannastraum, þann mesta fra síðari heimstyrjöld, þar sem fólk leggur sig og börn sín í mikla lífshættu til að freista þess að komast til betra lífs. Hundruð ef ekki þúsundir láta lífið- börn drukkna daglega eða kafna aftan í lotlausum vöruflutingabíl á hraðbraut í Austurríki. Mér finnst framlag íslenskra stjórnvalda sem hafa tilkynnt að við munum taka við 50 flóttamönnum alltof rýrt og eiginlega til skammar fyrir okkur sem þjóð. Kannski væri tíföld sú tala nær lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert