Læknir í leiklistarnám í Hollywood

Í hringiðu Hollywood á Hollywood Boulevard.
Í hringiðu Hollywood á Hollywood Boulevard. Ljósmynd/Ingólfur Guðmundsson

Jens Kristján Guðmundsson er menntaður háls-, nef- og eyrnalæknir sem sagði skilið við gamla líf sitt fyrir tveimur vikum og er kominn til Los Angeles þar sem hann hefur nám á mánudaginn við virtan leiklistarskóla kenndan við Stellu Adler. Hann valdi skynsömu leiðina áður en hann lærði að treysta hjartanu.

„Það er svo auðvelt að falla í þá gildru að reyna að uppfylla það sem maður heldur að aðrir búist við af manni. Af ótta við að vera dæmdur skrýtinn velur maður þetta skynsamlega og örugga í stað þess að hlusta á það sem hjartað segir.“

Hann fór á eðlisfræðibraut í MR og svo beint í læknisfræði í Háskóla Íslands þrátt fyrir að leiklistarbakterían blundaði alltaf í honum. Í sérnáminu í Svíþjóð fór hann næstum yfirum af stressi og keyrði sig áfram. „Ég var alltaf að hugsa um að mig langaði að gera eitthvað annað. Að vera á læknastofu eða inni á sjúkrahúsi alla mína starfsævi virtust hörmuleg örlög. En ég hélt áfram.“

Jens prófaði að fara í spuna- og leiklistartíma og þar fann hann sig. Leiklistarnámið hafði jákvæð áhrif á vinnu hans og hann fékk stuðning frá samstarfsfólki á sjúkrahúsinu. „Eftir því sem ég lærði meira í leiklistinni og fann leiðir til að gera sjálfan mig hamingjusaman fór ég að njóta þess að vera í vinnunni líka og nota það sem ég lærði í leiklistinni, að hlusta á fólk og vera opinn. Ef ég þurfti að segja einhverjum slæmar fréttir var ég fullkomlega til staðar. Fólk var mjög þakklátt fyrir það að vera ekki skilið eftir eitt með slæmar fréttir.“

Jens er í einlægu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina þar sem hann segir forvitnilega sögu sína um sjálfskönnun og ferðalag inn á við ekki síður en vestur um haf til kvikmyndaborgarinnar.

mbl.is
mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert