Sparkaði í höfuð liggjandi manns

mbl.is/júlíus

Karlmaður var handtekinn á heimili sínu um hálfsexleytið í austurborginni í gær, en hann var grunaður um líkamsárást og vörslu fíkniefna.

Kortéri síðar var bíll stöðvaður í Breiðholti en ökumaður hans er grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna.

Klukkan kortér yfir sjö slasaðist 14 ára drengur þegar hann datt af hjólabretti og fékk skurð á lærið. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Skömmu fyrir klukkan tvö í nótt var svo karlmaður handtekinn í austurborginni, grunaður um líkamsárás

Laust eftir klukkan tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um umferðaróhapp á Sæbraut, þar sem ekið var á ljósastaur. Engin slys urðu á fólki en draga þurfti bílinn í burtu.

Nokkru síðar var karlmaður handtekinn á heimili í Breiðholti, grunaður um líkamsárás. Hann var einnig grunaður um að rækta og hafa í vörslum sínum fíkniefni.

Klukkan hálffjögur í nótt sáu lögreglumenn mann ráðast á annan mann, koma honum í jörðina og sparka í höfuð hans. Árásarmaðurinn var handtekinn en sá sem ráðist var á fór heim í leigubíl eftir að sjúkraflutningamenn sem komu á vettvang skoðuðu meiðsl hans.

Erlendur ferðamaður varð síðan á vegi lögreglu um fjögurleytið í nótt. Sá var ofurölvi í Bankastræti, gat ekki gert grein fyrir sér né sýnt nokkuð sem benti til hvar hann héldi til. Hann var því vistaður í fangaklefa þangað til ástand hans lagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert