Lofa öllu frá húsaskjóli til kærleika

Síðan var stofnuð í gær og hafa stuðningsskilaboðin streymt inn …
Síðan var stofnuð í gær og hafa stuðningsskilaboðin streymt inn síðan. Skjáskot af Facebook

Fjöldi Íslendinga hefur lofað að veita flóttamönnum frá Sýrlandi stuðning af fjölbreytilegum toga á Facebook-síðunni „Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar“. Þar lofar fólk meðal annars húsnæði, fötum, peningum, vináttu og kærleika til flóttamanna. Byrjað er að skrá loforðin og verður þeim skilað Rauða krossinum eftir viku.

Síðan var stofnuð eftir að Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði í viðtali á Bylgjunni í gær að hún vildi ekki setja hámark á fjölda flóttamanna til Íslands. Rætt hefur verið um að taka á móti fimmtíu flóttamönnum sem er aðeins dropi í hafið í þeim mikla flóttamannastraumi inn í Evrópu sem sagður er vera einhverjir mestu fólksflutningar frá því í seinni heimsstyrjöldinni.

Skilaboðin hafa hrúgast inn á síðuna frá Íslendingum sem vilja leggja sitt af mörkum til að hægt verði að taka á móti fleiri flóttamönnum. Margir segjast geta lagt flóttamönnunum til föt, aðrir húsaskjól og enn aðrir félagslega aðstoð, vináttu og kærleika.

Þannig hefur til dæmis Dominique Plédel Jónsson, formaður Slow Food, boðist til þess að taka á móti og elda úr öllum mat sem á að henda vegna útlitsgalla eða smá skemmda á umbúðum eða öðru sem telst ósöluhæfur með aðstoð sjálfboðaliða sem hafa boðið sig fram.

Salmann Tamimi segir að hann og fjölskylda sín hafi áður tekið flóttamenn inn á heimili sitt og hún sé tilbúin til að endurtaka leikinn nú.

Búið er að koma af stað aðfangaskráningu til að skrásetja frjáls framlög einstaklinga sem hafa heitið aðstoð til flóttamannanna. Hún verður afhent Rauða krossi Íslands (RKÍ) mánudaginn 7. september. Skráningin er sjálfsprottin og er ekki á vegum RKÍ.

Aðrir vilja frekar aðstoða Íslendinga

Þó að afgerandi meirihluti skilaboðanna sem birtast á Facebook-síðunni séu frá fólki sem vill af einlægni gera sitt til að rétta flóttamönnum hjálparhönd ber þó eitthvað á einstaklingum sem eru ósáttir við framtakið.

„Nei takk komið nóg af þessu liði,“ skrifar Þór Sigurðsson.

Aðrir benda þeim sem heita flóttamönnum stuðningi að aðstoða frekar fátæka Íslendinga í neyð.

„Þurfum við ekki að taka til í okkar landi áður en það er ráðist í framkvæmdir annarstaðar? Kerfið okkar er handónýtt nú þegar og það gerir illt verra fyrir þetta fólk sem þarfnast mikillar og faglegrar hjálpar að koma hingað í þúsundatali í þetta ónýta kerfi sem boðið er upp á,“ skrifar Kitta Svansdóttir.

Aðfangaskráning vegna flóttamanna sem koma til Íslands

Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert