„Ég er ekki að auglýsa nýtt kjöt“

Jaroslava segir konurnar á Goldfinger allar ráða sig þangað af …
Jaroslava segir konurnar á Goldfinger allar ráða sig þangað af fúsum og frjálsum vilja. Skjáskot af heimasíðu Goldfinger

„Nýkomnar....
Andrea frá Ungverjalandi
Lila frá Frakklandi
Alice frá Kanada.“

Svona hljómar færsla á Facebook-síðu Goldfinger við ljósmynd sem sýnir þrjár léttklæddar konur frá hnjám og upp að nafla. Orðalagið gefur hugrenningatengsl við vöruauglýsingar og gætu því margir velt því fyrir sér hvort orðin „Á FRÁBÆRU VERÐI“ standi ósögð aftan við þrípunktinn. Jaroslava Davíðsson sver hinsvegar að færslan tengist ekki mansali.

Jaroslava, ekkja Ásgeirs Þórs Davíðssonar (Geira á Goldfinger), hefur rekið staðinn allt frá því að Ásgeir var bráðkvaddur árið 2012. Hún hafnar því alfarið að færslan stilli konunum upp sem söluvörum og segir hvorki mansal né vændi við lýði á Goldfinger.

„Þetta eru bara stelpur frá öðrum löndum sem sækja um að koma í vinnu hér og sýna sína list,“ segir Jaroslava. „Sumar eru bara í viku eða nokkra daga, aðeins að kíkja á landið. Sumar koma svo aldrei að vinna. Kíkja bara aðeins á staðinn, taka nokkur „show“ og fara.“

Á að vera hreint og fínt

Jaroslava segist vera með sjö konur í vinnu á Goldfinger sem hafi dansað þar í níu ár. 

„Það segir sig sjálft að ég fæ lítið af nýjum dönsurum svo ég þarf að auglýsa þegar ný stelpa er komin til landsins. Það er rosalega gaman fyrir karlmenn að kíkja og sjá hvað stelpurnar gera á sviðinu og svona. Ég myndi aldrei tengja þetta við annað en dans á sviði, ég er ekki að auglýsa nýtt kjöt eða eitthvað.“

Facebook færslunni var meðal annars deilt af sölusíðu inn á hóp sem ætlaður er til að að auðvelda kaup á „erótísku nuddi“ en það orðalag hefur löngum verið slangur fyrir vændi. Jaroslava kveðst ekki hafa tekið eftir því að færslunni hefði verið deilt með þessum hætti og segir Facebook færsluna einfaldlega hafa verið ætlaða til að láta fólk vita af því að nýjar stúlkur myndu vinna á staðnum næstu daga. 

„Ég fylgist mjög vel með póstum sem er deilt svona en þetta hefur farið framhjá mér. Við pössum upp á athugasemdir og allt því þetta á að vera hreint og fínt hjá okkur.“

„Annað level af konum“

Jaroslava segir að það komi aldrei þriðji aðili að ráðningu kvennanna og að hún vinni aldrei með fólki sem reyni að „plata hana“ til að taka konur í vinnu. Hún segir konurnar sækja um sjálfar, í gegnum tölvupóst eða í gegnum vinkonur sem vinna eða hafa unnið á Goldfinger. Segir hún hróður staðarins fara víða enda hafi hann verið í rekstri í 16 ár.  

„Allar stelpurnar sem koma til landsins fá kennitölu og allt hjá mér. Það er allt uppi á borðum,“ segir Jaroslava og þvertekur fyrir að konurnar stundi vændi á eða í tengslum við Goldfinger. „Nei, nei, nei. Útilokað mál. Við vinnum fimm daga vikunnar, ég sæki þær og keyri í vinnuna, þær vinna, ég keyri þær heim eftir vinnuna og búið.“

Jaroslava segist ekki geta ímyndað sér að vændi væri nokkru sinni stundað af konunum sem vinna á Goldfinger.

„Það er vændi niðri í bæ og á netinu en það tengist alls ekki Goldfinger og hefur aldrei gert. Stelpurnar sem dansa á súlunni, það er bara list. Þær hugsa öðruvísi um sjálfar sig en vændiskonur sem selja sig niðri í bæ. Það er annað „level“ af konum sem kemur og dansar fyrir mig. Við erum ekki með nudd, ekki með mansal, ekki með neitt.“

Jaroslava Davíðsson segir færsluna ekki tengjast mansali.
Jaroslava Davíðsson segir færsluna ekki tengjast mansali. Skjáskot af færslu Goldfinger á Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert