Enn safnað fyrir börn í Sýrlandi

Helmingur flóttafólks frá Sýrlandi eru börn.
Helmingur flóttafólks frá Sýrlandi eru börn. Ljósmynd/UNICEF

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn frá Sýrlandi stendur enn yfir. Fjöldi fólks hefur lagt henni lið í dag og um helgina. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, stendur nú fyrir einum umfangsmestu neyðaraðgerðum sínum frá upphafi vegna átakanna í Sýrlandi. Aðgerðirnar eru samhæfðar og ná yfir fjölda ríkja.

Hægt er að styrkja baráttuna með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900. Við það renna 1.900 krónur í neyðaraðgerðir UNICEF fyrir börn og fjölskyldur frá Sýrlandi.

Helmingur þeirra sem þurft hafa að flýja vegna stríðsins eru börn. UNICEF berst fyrir því að tryggja börnum aðgang að hreinu vatni, heilsugæslu og menntun og leggur þunga áherslu á barnavernd, bæði í flóttamannabúðum og í þeim samfélögum á svæðinu sem taka að sér flóttafólk. Umfangsmikil sálræn aðstoð er veitt og allt kapp lagt á að halda börnum áfram í námi. Skólinn er nauðsynlegur fasti í tilveru þeirra og lykillinn að bjartari framtíð.

Öll börn skipta máli

UNICEF á Íslandi hóf fyrst neyðarsöfnun fyrir Sýrland haustið 2012 og fjölmargir hafa lagt baráttunni lið síðan þá.

„Seinustu daga hafa framlögin streymt inn. Við hjá UNICEF á Íslandi erum virkilega snortin yfir hluttekningunni sem við finnum hér heima. Ástandið vegna stríðsins í Sýrlandi er skelfilegt og því er ánægjulegt að sjá viðbrögð fólks hér á landi,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF starfar í yfir 190 löndum, meðal annars í Makedóníu og Serbíu þangað sem straumur flóttafólks hefur legið til eða í gegnum á undanförnum dögum. Þar leggur UNICEF áherslu á veita börnum aðhlynningu ásamt því að þrýsta á stjórnvöld að virða réttindi barna.

„UNICEF berst fyrir því að réttindi allra barna séu virt – alltaf, allsstaðar og sama í hvaða aðstæðum þau kunna að vera,“ segir Bergsteinn Jónsson, í fréttatilkynningu.

Rúm fjögur ár eru liðin frá upphafi stríðsins í Sýrlandi. Á sérstakri heimasíðu UNICEF fyrir neyðaraðgerðirnar í Sýrlandi og í nágrannaríkjunum er að finna ítarlegar upplýsingar um alla baráttu UNICEF á svæðinu og stöðuna úti.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 (1.900 krónur). Á heimasíðu UNICEF á Íslandi er einnig hægt að styrkja með margvíslegum leiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert