Fjölmargir vilja veita hjálparhönd

„Kæra Eygló, ég og dóttir mín getum boðið flóttamönnum frá Sýrlandi hlýju, virðingu og vináttu. Við getum að auki gefið notuð föt, húsgögn og húsbúnað sem við þurfum ekki lengur sjálfar á að halda. Við viljum styðja við og taka vel á móti þessu fólki sem hefur þolað hörmungar í sínu heimalandi og hjálpa þeim að öðlast betra líf!“

Þetta er á meðal þeirra skilaboða sem birt hafa verið á Facebook-síðunni „Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar“ þar sem skorað er á félagsmálaráðherra og stjórnvöld að taka við fleiri flóttamönnum til landsins en gert hefur verið ráð fyrir. Fjölmargir hafa skrifað hliðstæð skilaboð á síðuna og boðið fram aðstoð sína. Einkum húsaskjól, fatnað og leikföng. Þá býður lögfræðingur fram ókeypis lögfræðiaðstoð og læknanemi læknisaðstoð.

„Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa flóttamönnum að fóta sig í nýju samfélagi. Ég er tilbúin að greiða fargjald fyrir litla fjölskyldu til Íslands. Eins er ég að ljúka námi í læknisfræði og vil nota þá menntun til að veita flóttamönnum viðeigandi læknisaðstoð og almenna heilbrigðisþjónustu,“ segir á síðunni og sömuleiðis:

„Verði brugðist hart við og stór flóttamannahópur fluttur þegar í stað í skjól innan íslensk samfélags, býðst ég til þess að veita fólkinu gjaldfrjálsa lögfæðiráðgjöf, undir merkjum Rauða krossins eða annarra góðgerðarsamtaka, meðan á aðlögun þess stendur.“

Þið tókuð á móti mér og fjölskyldunni minni árið 1996. Flest systkini mín ásamt mér eru að stunda nám á Háskólastígi þökk sé ykkur. Þið getið endurtekið leikinn með því að gera kraftaverk fyrir fimm mans í viðbót.“

„Ég er tilbúin að hjálpa eins og ég get. Ég á fullt af fötum bæði barna og fullorðinna. Auk þess á ég mikið af leikföngum síðan að ég var barn sem eru uppá háalofti hjá foreldrum mínum, í 20+ kössum svo að það er nóg til.  Auk þess er ég góður vinur og á nóg af ást og umhyggju að gefa.“

„Ég get boðið fram barnafatnað, búsáhöld, handklæði, rúmföt, barnarúmföt, barnarúm, húsgögn, umhyggju og stuðning fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem eru á flótta frá hryllilegum aðstæðum og sem ég vil að við bjóðum velkomin hingað sem fyrst!“

Helmingur flóttafólks frá Sýrlandi eru börn.
Helmingur flóttafólks frá Sýrlandi eru börn. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert