Verra ástand en í verkfallinu

18 geislafræðingar vinna í dag sinn síðasta vinnudag á Landspítalanum …
18 geislafræðingar vinna í dag sinn síðasta vinnudag á Landspítalanum að óbreyttu, mbl.is/Rósa Braga

„Þetta er verra ástand en var í verkfallinu,“ segir Katrín Sigurðardóttir, formaður félags geislafræðinga um aðstæður á Landsspítala en í dag taka uppsagnir 18 geislafræðinga á spítalanum gildi en það mun um einn þriðji hluti starfandi geislafræðinga við spítalann.

„Áhrifin af verkfallinu voru sú að þá var einn þriðji hluti ekki inni en hægt var að kalla fólk inn á undanþágu og það var gert grimmt.“

Katrín segir að vel sé hægt að leysa deiluna sé vilji fyrir hendi en að svo virðist ekki vera eins og stendur þar sem engar viðræður séu milli félagsins og Landspítalans um málið sem stendur.

„Það er ekki einu sinni verið að tala við okkur. Það er ekkert verið að tala saman í dag og ef ekki er rætt við okkur mun lítið gerast.“

„Það var nú bara hringt hingað frá Noregi og við beðin um að benda þeim á fólkið en það sem er sorglegt er að fólk er jafnvel að fara úr geiranum. Það er agalegt því við höfum ekki það mikið af geislafræðingum og þetta er algjör sóun.“

Setja í sumarleyfisgírinn

Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs, segir að upprunalega hafi 21 sagt upp störfum en að þrír hafi dregið uppsagnir sínar til baka. Þrjár eða fjórar uppsagnir muni síðan koma til framkvæmda um næstu mánaðarmót að óbreyttu en að vonast sé til að þeir og flestir hinna 18 sem hætta í dag muni draga uppsagnirnar til baka. 

„Þetta þýðir að við munum þurfa að fara í sumarleyfisgírinn. Það verður auðvitað mjög erfitt og getur ekki gengið til lengdar. Það þarf að gera einhverjar ráðstafanir ef okkur tekst ekki að ná þeim inn.“

Óskar segir að brugðist hafi verið við yfirvofandi manneklu með því að breyta vinnufyrirkomulagi þeirra geislafræðinga sem eftir eru og bóka færri myndgreiningar af biðlistum. Segir hann bráðaþjónustu ganga fyrir og að nokkuð geti hægt á biðlistum.

„Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort ástandið verði betra eða verra [en í verkfallinu] en vonandi kemur ekki til þess, vonandi dregur fólk uppsagnir sínar til baka.“

Óskar segir að fram hafi farið einstaklingsbundin viðtöl við þá sem sagt hafa upp og að tvisvar hafi verið haldinn fundur með hópnum. Segir hann spítalann ekki hafa fjármagn til að bæta við kjarasamninga en að rætt hafi verið um stofnanasamning. Ekki standi til að breyta honum beinlínis heldur  að tryggja að farið sé eftir honum.

„Þar eiga geislafræðingar aðeins inni. Við viljum og munum bæta það en eingöngu eftir því sem samið var um fyrir tveimur árum eða svo.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert