Hafa orðið fyrir áralöngu ofbeldi

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fjölmargar konur búa í stöðugum ótta við fyrrverandi eiginmenn eða sambýlismenn eftir að hafa þurft að þola gróft heimilisofbeldi af þeirra hálfu. Ein þeirra er Ásdís Hrönn Viðarsdóttir sem greip til þess örþrifaráðs að flytja með börn sín tvö til Þórshafnar fyrir tveimur árum til þess að flýja ofbeldið. Kastljós Ríkisútvarpsins ræddi við Ásdísi í kvöld. Hún segir lítið hafa breyst en mbl.is fjallaði á sínum tíma um mál Ásdísar.

„Hann ætlar ekki að hætta fyrr en annað okkar stendur uppi. Hann segir það bara beint út,“ sagði Ásdís meðal annars í viðtalinu en hún hefur þurft að sitja undir ofbeldishótunum undanfarin þrjú ár en hún bjó með manninum í nokkra mánuði árið 2010. Meðan á sambandinu stóð varð Ásdís margoft fyrir alvarlegu ofbeldi. Hún segir að hótanirnar hafi ekki minnkað við flutningana á Þórshöfn. Maðurinn var margoft dæmdur fyrir brot gegn henni.

Meðal annars var maðurinn dæmdur í nálgunarbann sem hann braut gegn í fjölda skipta. Hann setti sig í samband við bæjarbúa á Þórshöfn og sá sveitarstjórinn ástæðu til þess að vara fólk við honum. Maðurinn var dæmdur í sumar en hefur síðan haldið uppteknum hætti og sent Ásdísi fjölda skilaboða auk þess að ónáða ættingja hennar. Sum skilaboðin hafa innihaldið beinar hótanir samkvæmt umfjöllun Kastljóssins í kvöld.

Sagði hana hafa orðið fyrir árás á djamminu

Kastljósið fjallaði í gær um hliðstætt mál Kamilu Modzelewska. Kamila kynntist fyrrverandi eiginmanni sínum á Íslandi 2005 og fóru þau fljótlega að búa saman í Mosfellsbæ. Að hennar sögn fór maðurinn fljótlega að beita hana ofbeldi. Bæði andlegu og líkamlegu. Eftir grófa líkamsáverka eftir eina árásina heimtaði hann að fara með henni á sjúkrahús og sagði lækninum að hún hefði orðið fyrir árás á djamminu.

Kamila segir líkt og eiginmaðurinn væri með tvo persónuleika. Annar væri góður en hinn slæmur. Haustið 2012 ákvað Kamila að fara frá manninum endanlega og óska eftir skilnaði. Áður hafði hún nokkrum sinnum reynt að yfirgefa hann. Þau eiga tvær dætur, fæddar 2007 og 2011. Kamila leitaði á náðir Kvennaathvarfsins eftir að hafa yfirgefið manninn.

Þegar á dvölinni í Kvennaathvarfinu stóð fór að bera á einkennilegri hegðun eldri dótturinnar og vaknaði grunur um að hún hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi. En rannsókn var hætt vegna þess að stúlkan vildi lítið ræða málið í viðtali. Haft er eftir Kolbrúnu Guðjónsdóttur, réttargæslumanni Kamilu, telur sérfræðingur að kynferðisofbeldi hafi átt sér stað en maðurinn neiti því eindregið.

Kamila hefur síðan orðið fyrir linnulausu ofbeldi og ofbeldishótunum af hálfu mannsins. Hann hefur setið um hana og meðal annars hefur verið kveikt í bifreið hennar. Kamila hefur reynt að safna sönnunargögnum gegn manninum til þess að fá frið fyrir honum í gegnum nálgunarbann en það hefur gengið illa. Hún segir lögregluna lítið gera í málinu.

Kastljós ræddi við fyrrverandi eiginmann Kamilu sem vísaði öllum ásökunum hennar á bug. Hann hafi til að mynda aðeins einu sinni slegið til hennar. Þá hafi barnaverndar- og félagsmálayfirvöld verið andsnúin honum að hans sögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert