Möguleg röskun á þjónustu Strætó

Ekki hefur tekist að manna allar stöður vagnstjóra fyrir veturinn.
Ekki hefur tekist að manna allar stöður vagnstjóra fyrir veturinn. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Röskun getur orðið á þjónustu Strætó á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum þar sem ekki hefur tekist að manna allar stöður vagnstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó. Einstaka ferðir gætu fallið niður sem og að aukavagnar verða ekki alltaf til taks á fjölförnum leiðum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þjónusta Strætó hefur aukist talsvert að undanförnu og enn standa yfir sumarleyfi vagnstjóra.  

Í tilkynningunni kemur fram að um sé að ræða millibilsástand sem ekki er gert ráð fyrir að vari til langs tíma. Viðskiptavinir Strætó eru hvattir til að fylgjast vel með heimasíðu Strætó bs. (straeto.is) þar sem reglulega verða settar inn tilkynningar um hvaða ferðir falla niður. Lögð verður áhersla á að halda uppi ferðum á fjölmennum og mikið notuðum leiðum þannig að ferðir falli frekar niður á þeim leiðum sem minna eru notaðar.

„Vegna þessa er mikið álag á vagnstjórum og eiga þeir hrós skilið fyrir hversu vel þeir hafa staðið undir því. Við biðjum viðskiptavini okkar velvirðingar á skertri þjónustu og um að sýna vagnstjórum skilning. Unnið er hörðum höndum að ráðningu nýrra starfsmanna og mönnun vakta. Það verkefni gengur vel og bætast nýir vagnstjórar í hópinn á hverjum degi auk þess sem von er á fleiri vagnstjórum í september og október,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri frétt mbl.is:

Strætó í öngstræti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert