Eldur í iðnaðarhúsnæði

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í tvígang í nótt vegna eldsvoða. Um þrjúleytið var tilkynnt um alelda bíl á bílastæði í Kópavogi og var ekkert hægt að gera og brann hann til kaldra kola. Varðstjóri í slökkviliðinu sagðist ekki geta sagt til um upptök eldsins á þessari stundu en málið væri í rannsókn.

Skömmu síðar var tilkynnt um eld í útvegg iðnaðarhúsnæðis í Hraunahverfi í Hafnarfirði. Þar hefur sennilega kviknað eldur í rusli eða einhverju öðru við útvegg og læsti eldur sig í þakkant hússins. Slökkviliðið þurfti að rífa þakkantinn en þakið virðist hafa sloppið að mestu. Eins fór talsverður reykur inn í húsið og var húsið reykræst, að sögn varðstjóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert