Öflugar íslenskar bjóráhugakonur

Elín Oddný, ein af stofnfélögum Félags íslenskra bjóráhugakvenna.
Elín Oddný, ein af stofnfélögum Félags íslenskra bjóráhugakvenna. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þær hafa brennandi áhuga á bjór, konurnar sem eru í Félagi íslenskra bjóráhugakvenna. Þær hittast reglulega og smakka og fræðast um bjór. Smekkur þeirra á bjór er jafn ólíkur og þær eru margar. Eitt af markmiðum félagsins er að raddir kvenna fái að heyrast þegar kemur að því að dæma bjór og gefa álit. Í sérfræðiráði þeirra eru afar bjórfróðar konur sem bjóða krafta sína fram.

„Viðbrögðin komu okkur gríðarlega á óvart þegar við stofnuðum félagsskapinn fyrir tæpu ári, þá varð allt vitlaust. Við ætluðum að hittast nokkrar vinkonur á Micro Bar og smakka saman bjór í tilefni stofnfundarins, en okkur að óvörum mættu um hundrað og fjörutíu konur. Við þurftum að flytja fundinn snarlega yfir í stærra húsnæði,“ segir Elín Oddný, ein af stofnfélögum Félags íslenskra bjóráhugakvenna.

„Í kjölfarið fór af stað mikil umræða og aðsendar greinar birtust meðal annars í Morgunblaðinu þar sem eldri menn lýstu miklum áhyggjum vegna þess að mæður þessa lands ætluðu að fara að stunda ótæpilega öldrykkju. Þetta sýndi sannarlega nauðsyn svona félagsskapar.“

Raddir bjórfróðra kvenna

Elín segir að ein af ástæðum þess að félagið var stofnað sé sú að mörgum bjórfróðum konum finnist að þekking þeirra á bjór hafi ekki fengið að njóta sín.

„Þeim finnst undarlegt að upplifa það að karlar ætli að kenna þeim hvernig þær eigi að drekka bjór, jafnvel konum sem hafa bruggað árum saman og eru vel að sér í faginu. Þær hafa upplifað sig svolítið jaðarsettar. En þetta er að breytast til batnaðar og við gáfum út Manifestó, eða stofnsamþykkt, um að eitt af okkar markmiðum sé að hafa áhrif á samfélagslega umræðu og bjóða krafta okkar fram þegar verið er að dæma nýjungar í bjór. Við erum tilbúnar að senda okkar konur sem álitsgjafa og við höfum dæmt í keppnum. Við erum með þrjátíu til fjörutíu kvenna sérfræðiráð og þær konur hafa verið kallaðar til og það er ánægjulegt, því að pólitískt markmið okkar er að raddir okkar og álit heyrist. En aðalmarkmiðið er að vera með góðan og skemmtilegan vettvang til að koma saman og hafa gaman.“

Hittingur og fræðsla

Elín segir að á því tæpa ári sem liðið er síðan félagið var stofnað hafi verið haldnir nokkrir fundir, m.a. aðalfundur og að sjálfsögðu jóla-, þorra- og páskabjórssmökkun.

„Við vorum með síðsumarsfund í liðinni viku og þá var Bjórakademían með kynningu fyrir okkur. Síðan rúllar þetta eftir því hvað er að gerast á vettvangi bjórsins hverju sinni. Við erum alltaf ánægðar að fá eitthvað nýtt að smakka og við höfum leitast við að blanda saman óformlegum hittingi og fræðslu og fengið ýmsa aðila til að koma og segja okkur frá því sem er á döfinni,“ segir Elín og bætir við að þetta sé skemmtilegur félagsskapur og konurnar hafi eignast góðar vinkonur í hópnum.

„Stundum mæta heilu vinkonuhóparnir saman og stundum hittir maður einhverja konu á fundi sem maður kannast við en hafði ekki hugmynd um að hefði brennandi áhuga á bjór.“

Þúsund læk á Facebook

Elín segir að eðli málsins samkvæmt sé 20 ára aldurstakmark í félagsskapinn en þar séu konur á

öllum aldri, sú elsta sé t.d yfir sjötugu.

„Þetta er ekki mjög formlegur félagsskapur og við höldum ekki stranga félagaskrá. Fjöldinn er ekki á hreinu en við erum að detta í þúsund læk á Facebook og nokkur hundruð konur hafa skráð sig á póstlista hjá okkur. Og það eru alltaf einhverjar nýskráningar í hvert sinn sem við erum með viðburð. Við rukkum ekki félagsgjöld heldur borga þær sem mæta á kostnaðarverði hverju sinni sem viðburður er á okkar vegum.“

Bjór eftir veðri og árstíð

Elín hefur haft áhuga á bjór í ára-raðir en á engan einn uppáhaldsbjór.

„Það fer eftir árstíðinni og stemningunni hverju sinni hvaða bjór mér finnst bestur. Á sumrin finnst mér léttur og ferskur bjór góður en dekkri og fyllri bjór höfðar meira til mín yfir veturinn. Það fer líka eftir því hvort maður er að para bjórinn með einhverjum mat, þetta er smekksatriði hverju sinni. Konur hafa mjög mismunandi smekk fyrir bjór, rétt eins og karlar. Það er til dæmis gömul mýta að konur séu minna fyrir dökkan bjór en karlar. Hún Unnur Flóvenz, sem er meðstofnandi minn í félagsskapnum hún drekkur helst dökka bjóra, porter og stout.“

Með stílabækur í veskjunum

Elín segir spennandi hversu mikil gróska er í bjórframleiðslu á Íslandi.

„Ég hef verið að smakka hveitibjóra og ýmis sumaröl undanfarið og líst vel á, mér finnst alltaf gaman að smakka eitthvað nýtt. Það er ákveðinn metnaður hjá sumum félagskonum okkar, þær eru með stílabækur í veskjunum og skrá niður allar tegundir sem þær smakka. Ég er ekki enn orðin svo róttæk,“ segir Elín og bætir við að sumum konum finnist kranabjór bestur á meðan aðrar vilji einvörðungu bjór í glerflöskum.

„Margar hafa sterka skoðun á því úr hvernig glösum skuli drekka hvaða bjór. Sjálf átti ég nú ekki nema tvær ólíkar tegundir af bjórglösum en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, og engin tvö þeirra eru eins. Ég er alltaf að bæta í safnið og verða vísari í fræðunum.“

Systur í bjór í útlandinu

Elín segir ýmsar tillögur hafa komið upp um pílagrímsferðir hjá félagsskapnum, þó að ekki hafi orðið af slíku enn, enda félagið ekki nema tæplega eins árs.

„Það væri gaman að fara í hópferð á bjórhátíð í Kaupmannahöfn. Fyrir mína parta væri Belgía mjög skemmtilegt land til að heimsækja í tengslum við bjór, þar er mikil og gróin bjórmenning. Það er líka margt skemmtilegt að gerast í brugghúsum allra Norðurlandaríkjanna og í Bandaríkjunum eru samtök sem heita „Pink Boots Society“, eða Bleiku stígvélin, sem eru samtök kvenna sem eru bruggmeistarar. Vissulega væri gaman að heimsækja þessar systur okkar í bjórnum, við fáum fréttir frá þeim reglulega og fylgjumst með því sem þær eru að gera í bjórbransanum. Í Svíþjóð og Danmörku eru líka áhugafélög kvenna um bjórmenningu og þær eru með fræðslu um bjór, rétt eins og við. Það er gaman að fylgjast með því sem aðrar konur eru að gera í öðrum löndum í þessu sameignlega áhugamáli okkar.“

AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert