„Þetta er ekkert rothögg“

Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki verið minna í 17 ár. Árni …
Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki verið minna í 17 ár. Árni Páll Árnason er formaður flokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Eva Indriðadóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, hefur áhyggjur af stöðu Samfylkingarinnar sem í nýjum þjóðarpúlsi Gallups mælist með 9% fylgi, sem hefur ekki verið minna í 17 ár. Þrátt fyrir það kveðst hún brött og segir Samfylkingarfólk langt frá því að fara leggja árar í bát. „Þetta er ekkert rothögg.“

„Mér líst alls ekki vel á stöðuna, en ég held að við verðum að gera allt sem við getum til að ná að vinna okkur upp þeirri stöðu sem við erum í núna. Það er ótrúlegt að sjá siglingu Pírata, en Píratar eru að gera góða hluti og það er greinilega eitthvað að virka,“ segir Eva.

Kjósendur í leit að einhverju nýju

Aðspurð kveðst Eva ekki hafa skýringar á reiðum höndum sem útskýri fylgistap Samfylkingarinnar. „Fólk virðist augljóslega vera að leita að einhverju nýju, og eitthvað nýtt virðist ekki vera í boði hjá Samfylkingunni og þeim flokkum sem eru til staðar.“

Eva telur að almenningur líti á Pírata sem nýtt og ferskt afl sem ekki sé hægt að tengja við það sem á undan er gengið í pólítikinni. „Það er ekki hægt að kenna Pírötum um neitt,“ segir hún. 

Spurð að því hvort hún telji að þörf á að gera breytingar á forystusveit Samfylkingarinnar, segir Eva: „Ég held að forystan sé alveg að gera góða hluti. Og ég held að það sé ekki að sakast við forystu flokksins eitthvað sérstaklega,“ segir hún. 

Aðspurð segir hún að það geti vel verið hluti af fylgistapinu að Árni Páll Árnason, formaður flokksins, hafi ekki náð að koma skilaboðum Samfylkingarinnar á framfæri við kjósendur. „Ég myndi alls ekki kalla það ástæðu [fyrir fylgistapinu].“

„Við viljum meira og við vitum að við getum meira. Þá er það undir okkur komið að sýna hvað í okkur býr,“ segir hún að lokum.

Eva Indriðadóttir er formaður Ungra jafnaðarmanna.
Eva Indriðadóttir er formaður Ungra jafnaðarmanna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert