Að tala við börn um stríð

Barn á flótta. Þessi ungi drengur er kominn á brautarstöð …
Barn á flótta. Þessi ungi drengur er kominn á brautarstöð í Búdapest í Ungverjalandi. Ferðinni er heitið til Norður- eða Vestur-Evrópu. AFP

Aðgengi að fjölmiðlum er meira en nokkru sinni fyrr og fréttir af stríðsátökum eru orðnar hluti af umhverfi barna og ungmenna á Íslandi. Börn hafa þó takmarkaðar forsendur til að skilja og vinna úr upplýsingum um stríð og ofbeldi. 

Hjördís Eva Þórðardóttir, réttindafræðslufulltrúi UNICEF á Íslandi, kannast vel við að þurfa að útskýra heiminn fyrir ungum börnum sínum og því tók hún saman nokkur góð ráð fyrir foreldra og aðra sem umgangast börn.

„Umræða og umfjöllun um hryllilegan aðbúnað og upplifun sýrlensks flóttafólks síðustu vikur og daga hafa ekki skilið nokkurn mann eftir ósnortinn,“ skrifar Hjördís. „Ljósmyndir í fjölmiðlum miðla raunveruleika sem milljónir sýrlenskra barna búa við. Þau eru hornreka, eiga sér ekki öruggan samastað, ganga ekki í skóla, hafa ekki aðgang að heilsugæslu og eru í stöðugri hættu. Einhver hryllilegasta birtingarmynd þessa veruleika eru myndir af drukknuðum börnum sem mara í hálfu kafi undan ströndum Miðjarðarhafsins.“

Hjördís segir að börn og ungmenni séu vel með á nótunum, þau fylgist með fjölmiðlum og hlusti með öðru eyranu þegar fréttatíminn er í sjónvarpinu. „Fréttir af stríðsátökum eru hluti af umhverfi barna og ungmenna á Íslandi, í meira mæli núna en nokkurn tímann fyrr. Börn hafa takmarkaðar forsendur til að skilja og vinna úr upplýsingum um stríðsrekstur og ofbeldi. Umfjöllun fjölmiðla og hjálparsamtaka getur því verið til þess fallin að valda þeim hugarangri, ótta, kvíða og vanlíðan.“

Að opna augun fyrir ljótleika heimsins

Hjördís skrifar um eigin reynslu af því að útskýra hörmungarnar fyrir barni:

Eftir að hafa unnið fyrir UNICEF í nokkur ár og lesið mér til um átökin í Sýrlandi, taldi ég mig vel upplýsta og tilbúna fyrir umræður um þetta hrikalega stríð.  Allt þar til sjö ára sonur minn hóf orrahríð áleitinna spurninga um forsíður dagblaðanna einn daginn og í framhaldinu fréttatíma kvöldsins.  Hann var að opna augun fyrir ljótleika heimsins í fyrsta sinn, fyrr en við foreldrarnir hefðum óskað. Að hluta til fylltist ég stolti yfir þeirri samkennd sem bjó í brjósti hans. Löngunin til að skilja örlög jafnaldra sinna var mikil. Fyrir honum er þetta svart/hvítt, börn ættu alltaf að fá að vera hamingjusöm. Hann fór jafnvel að efast um það sem við foreldrarnir höfðum sagt honum; „mamma þú sagðir að í Barnasáttmálanum stæði að börn ættu aldrei að búa í stríði?“ – „mamma af hverju er þessi maður og þetta barn grátandi í þessum báti, er hann að sökkva?“ – „mamma af hverju fer UNICEF ekki bara með flugvél og sækir þetta fólk?“  Ég fylltist kvíða, hvernig útskýrir foreldri óréttlæti heimsins og grimmileg örlög barnanna frá Sýrlandi fyrir sjö ára barni?“

Horfið á fréttir þegar börnin eru sofnuð

Hjördís segir að hvert foreldri þurfi að meta út frá sínu barni hvort tilefni sé til að skýla því frá umfjöllun fjölmiðla.  Almenna reglan er að foreldrar ættu að vera mjög vel á varðbergi hvað varðar að halda myndefni frá ungum börnum sem getur valdið þeim vanlíðan eða kvíða. Engin ástæða er til að ung börn viti eða skilji smáatriði varðandi atburði frétta. Þau hafa mjög takmarkaða færni til að skilja ofbeldisfulla hegðun og geta fundið fyrir mikilli hræðslu við að sjá slíkt myndefni eða heyra lýsingar í fréttum. „Með það fyrir augum er til að mynda mælt með að foreldrar bíði með að horfa á kvöldfréttirnar þar til börnin eru farin að sofa, þegar mikið er fjallað um stríð og átök í samfélaginu.“

 Erfiðara getur verið að skýla eldri börnum frá umfjöllun fjölmiðla og því fullt tilefni fyrir foreldra að grípa þau tækifæri sem gefast til að ræða við börnin sín. „Þar gildir að ræða við þau opinskátt og reyna að útskýra eftir fremsta megni þá atburði sem þau sjá í fjölmiðlum og geta valdið þeim vanlíðan og kvíða. Þó við gerum okkar besta til að halda umfjöllun um Sýrlandsstríðið frá börnunum okkar, eru allar líkur á að þau sjái eitthvað um það á netinu, heima hjá vini eða í skólanum. Það er því mikilvægt að undirbúa þau og ræða þessa hluti við þau.“

Hér má lesa pistil Hjördísar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert