Engum neitað um augnlyf

Eylea er nýtt lyf sem notað er við aldurstengda hrörnun …
Eylea er nýtt lyf sem notað er við aldurstengda hrörnun í augnbotnum

Að mati lyfjagreiðslunefndar er ekki um eiginlega fjöldatakmörkun að ræða þegar kemur að greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna lyfja en heilbrigðisyfirvöld hafa eins og önnur stjórnvöld skyldu til að halda sig innan fjárlagaramma. 

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um takmörkun á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna lyfja.

„Þótt ekki sé um eiginlega fjöldatakmörkun að ræða er rétt að taka fram að áætlanir um fjölda sjúklinga sem unnar eru af sérfræðingum Landspítala ganga ekki alltaf eftir eins og á t.d. við um augnlyfið Eylea á þessu ári. Þar gerði áætlun ráð fyrir meðferð fyrir 30 sjúklinga á árinu. Sú áætlun reyndist ekki raunhæf og hefur fjöldinn því verið aukinn í 50 sjúklinga nýlega. Hvað önnur S-merkt lyf snertir hefur greiðsluþátttaka verið heimiluð fyrir áætlaðan fjölda sjúklinga. Þetta á t.d. við um lyfin Benlysta (gigtarlyf), Perjeta (krabbameinslyf), Kadcyla (krabbameinslyf) o.fl.

Engum hefur verið neitað um meðferð en sjúklingar eru hins vegar á biðlista fyrir Eylea- meðferð, og vandi þeirra sem voru í brýnustu þörf fyrir meðferð var leystur þegar fjöldinn var aukinn, sbr. framangreint.

Möguleikar heilbrigðisyfirvalda til að vinna að markmiði laganna eru ávallt að stórum hluta háðir fjárveitingum til málaflokksins samkvæmt ákvörðunum löggjafans í fjárlögum hverju sinni en heilbrigðisyfirvöld hafa eins og önnur stjórnvöld á hverjum tíma skyldu til að gæta þess að kostn­aður við veitingu þjónustu sé innan þess fjárlagaramma sem löggjafinn markar.

Ráðherra mun hér eftir sem hingað til beita sér fyrir auknum fjárveitingum til málaflokksins svo að ekki þurfi að koma til takmarkana á greiðsluþátttöku sem bitnar á sjúklingum,“ segir meðal annars í svari ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert