Höfðu ekki skilað bílnum aftur

mbl.is/Hjörtur

Lögreglumenn veittu athygli bifreið sem ekið var á móti rauðu ljósi við Snorrabraut í Reykjavík skömmu fyrir klukkan tólf í dag. Eftirför hófst í Bríetartúni en bifreiðin stöðvaði ekki fyrr en í Sóltúni. Ökumaður og farþegi hlupu þá út úr bifreiðinni og var ökumaðurinn handtekinn í kjölfarið og vistaður í fangageymslu grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Bifreiðin hafði verið fengin að láni á bílasölu til reynsluaksturs en ekki skilað aftur.

Starfsfólk hótels í austurborginni óskuðu eftir aðstoð lögreglu skömmu fyrir klukkan tvö vegna fólks á herbergi sem ekki náðist að vekja. Fólkið gat ekki greitt fyrir gistingu né veitingar sem það hafði fengið. Þá mátti sjá merki um fíkniefna neyslu í herberginu og var þar mikil óreiða.

Þá var ökumaður handtekinn við Dalveg í Kópavogi um hádegisbilið grunaður um ölvun við akstur. Ökumaðurinn var látinn laus eftir upplýsinga- og blóðsýnatöku. Tæpum tveimur tímum síðar var sami ökumaður handtekinn grunaður um ölvun við akstur í vesturbæ Kópavogs. Að lokinni blóðsýnatöku var maðurinn, sem var mjög ölvaður, vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert