„Kalt land, hlý hjörtu“

Margir útlendingar fagna frumkvæði Íslendinga og þakka fyrir góðvildina.
Margir útlendingar fagna frumkvæði Íslendinga og þakka fyrir góðvildina. Samsett mynd

„Ég er 11 ára gömul og frá Bandaríkjunum. Hvað get ég gert til að hjálpa? Ég vil hjálpa. Get ég sent eitthvað til ykkar?“

Þetta skrifar Devon Haas, einn þeirra útlendinga sem hafa skilið eftir skilaboð til Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra, á Facebook-síðunni Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar. 

Auk þeirra fjölmörgu Íslendinga sem enn eru að bjóða fram margvíslega aðstoð við móttöku flóttafólks hér á landi láta margir útlendingar sig málið varða. Þá þakka Sýrlendingar hlýhuginn.

„Ég er Sýrlendingur og fyrir hönd þjóðar minnar þakka ég ykkur frá innstu hjartarótum fyrir velvild ykkar og fyrir að vera mannleg. Ég býð fram hjálp mína ef þið þurfið, sérstaklega ef þið þurfið upplýsingar um sýrlensku þjóðina og hvað hún gerir, og hvað hún gerir ekki. Þetta gæti auðveldað húsnæðismálin fyrir gestgjafa og flóttafólk,“ skrifar Najem Al Habbal, og lætur bleikt hjarta fylgja færslunni.

Bisher Krouma, ungur Sýrlendingur, er innilega þakklátur. „Takk fyrir að endurvekja trú mína á mannkynið,“ skrifar hann. „Eftir fjögur hræðileg ár í hættulegasta landi heims, að þurfa að horfa upp á hrylling og að sleppa naumlega frá því að deyja nokkrum sinnum, á meðan stærstur hluti heimsbyggðarinnar horfir á og gerir ekkert, ég missti trúna. [...] Þakka þér Iceland og íbúar þess,“ endar hann á að skrifa.

Adnan er 45 ára lögfræðingur sem býr í Sýrlandi. Eiginkona hans er kennari. Hann á þrjár stúlkur og segist gjarnan vilja setjast að á Íslandi svo hann geti veitt börnum sínum áfram góða menntun. „Takk fyrir samúð og áhuga ykkar á málefnum okkar,“ skrifar hann. 

Margir segjast vona að íbúar sinna landa sýni sambærilegt frumkvæði og þrýsti á stjórnvöld að gera meira til að leysa flóttamannavandann. Og sumir láta einfaldlega verða af því.

„Nýsjálendingar láta sig líka málið varða. Takk Ísland fyrir að vera frábær fyrirmynd,“ skrifar Laura Surrich sem hefur stofnað sambærilega Facebook-síðu, Dear Rt Hon John Key, Syria is Calling. Á þeirri síðu kemur einmitt fram að verið sé að feta í fótspor Íslendinga sem bjóðist til að taka við fleira flóttafólki.

Nora Barré frá Bandaríkjunum gerði slíkt hið sama og stofnaði síðuna Syria is Calling USA. Í Kanada hefur verið stofnuð síðan Syria is Calling Canada. Áfram mætti telja.

Gleymið ríkisstjórnum

Þá eru margir að leita ráða, hvernig þeir eigi að bera sig að við að bjóða fram heimili sín og aðra aðstoð í sínum heimalöndum. 

Einnig tjáir sig fólk á síðunni sem segist vera á flótta, m.a. maður frá Sýrlandi sem er nú staddur í Tyrklandi. Til að komast þangað segist hann hafa greitt smyglurum 4.000 dollara, um 500 þúsund krónur.

Bandaríkjamaður segist gjarnan vilja koma til Íslands til að hjálpa. Hann tali arabísku og biður um að hann verði látinn vita hvernig hann geti lagt sitt af mörkum svo Íslendingar geti tekið við fleiri flóttamönnum. 

Aðrir einfaldlega þakka fyrir frumkvæðið og skilja eftir hvatningarorð.

„Gleymið ríkisstjórnum, það er almenningur sem verður að grípa til aðgerða,“ bendir kona frá Bandaríkjunum á.

„Kalt land, hlý hjörtu. Virðingarfyllst,“ skrifar Giselle Vargas frá Brasilíu. 

Aðstandendur síðunna Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar, hafa einnig sett upp aðfanga­skrán­ing­arsíðu þar sem þeir sem vilja leggja hönd á plóg geta skrá­sett frjáls fram­lög til að geta tekið á móti flótta­mönn­um. Gögnin verða afhent Rauða kross­in­um bráðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert