Langir biðlistar í Brúarskóla

Brúarskóli í Vesturhlíð.
Brúarskóli í Vesturhlíð. mbl.is/Brynjar Gauti

Börn á biðlista eftir plássi í Brúarskóla eru nú jafnmörg nemendum skólans. Björk Jónsdóttir, skólastjóri Brúarskóla, segir 26 börn á biðlista og að þó svo að alltaf sé einhver bið eftir plássi í skólann sé listinn orðinn óvenju langur.

Brúarskóli er ætlaður börnum á grunnskólastigi með alvarlegan hegðunarvanda. Mörg þeirra eru á einhverfurófi eða með athyglisbrest og ofvirkni en Björk segir að í raun sé það allt mögulegt sem plagi börnin.

„Við veitum skólunum einnig ráðgjöf, þar er líka langur biðlisti, ég veit ekki hvaða vinsældir þetta eru,“ segir Björk. „Okkar aðalbækistöð er hér í Vesturhlíð 3 en svo erum við með einskonar útibú sem við köllum þátttökubekki í Grafarvogi og Breiðholti. Þar erum við að taka fjóra til sex krakka í hvorn hóp.“

Björk segir að þátttökubekkurinn í Grafarvogi hafi verið settur á laggirnar fyrir ári síðan en að þó svo að Brúarskóli hafi verið að bæta við úrræðum vilji skólinn síður „sprengja sig“ og taka við of mörgum. „Hugsunin í Brúarskóla er alltaf sú að barnið fari til baka [í almennan grunnskóla] svo þau eru bara tímabundið hér.“

Björk segir það rannsóknarefni af hverju bæst hefur svo mjög á biðlistann en segist ekki hafa neina hugmynd sjálf um hvað valdi. Hún segir marga foreldra hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og að hún skilji þau afskaplega vel. „Ég veit ekki hver skýringin er en það er náttúrulega rosalega erfitt fyrir fólk að þurfa að bíða ef það þarf á þjónustunni að halda.“

„Við munum redda þessu“

Sem stendur nær biðlistinn fyrir ráðgjöf á vegum Brúarskóla innan grunnskólanna fram í desember þrátt fyrir að önnin sé rétt að byrja. Björk segir að það sé ekkert eitt sem þarf að gera til að bæta ástandið heldur séu ýmsir þættir sem spili saman. Hún tekur þó fram að hún telji farsæla lausn frekar felast í almenna skólakerfinu en að bæta við plássum í Brúarskóla.

„Kennarar í almennum skólum eru á kafi í sínum verkefnum. Ég held að það þurfi samt að koma inn aukin þekking á börnum sem eiga við svona erfiða hegðun að etja og hvernig kennarar eigi að takast á við hana. Sá þáttur held ég að spili svolítið stórt inn í.,“ segir Björk. „Það þarf að styrkja kennarana. Þeir eru kraftaverkafólk.“

Þó svo að aðstæður séu erfiðar nú segist Björk ekki telja að biðlistarnir muni halda áfram að lengjast.

„Ég er svo bjartsýn að eðlisfari að ég ætla að trúa því að þetta sé eitthvað sérstakt núna og að okkur á höfuðborgarsvæðinu takist í sameiningu að vinna í þessu máli. Við munum redda þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert