Náðu að laga mestu óánægjuna

Hjá ríkissáttasemjara.
Hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skrifað var undir nýjan almennan kjarasamning Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) við Samtök atvinnulífsins í húsnæði ríkissáttasemjara á sjötta tímanum í dag. Guðmund­ur Ragn­ars­son, formaður VM segist telja að með nýja samningnum náist að laga mestu óánægjuna meðal félagsmanna.  Boðuð vinnu­stöðvun VM átti að hefjast á miðnætti 6. sept­em­ber.

„Við höfum náð að framkalla bókun varðandi nánari útfærslu á þessari launaþróunartryggingu og hvernig hún kemur varðandi staðsetningu manna í upphafshækkuninni,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Hann segir samninganefndina ekki beint sátta en talið var að ekki væri hægt að komast lengra í bili. „Við erum ekki beint sáttir við þetta í ljósi þess að forsendur þessa kjarasamnings sem verið var að skrifa undir, eru brostnar samkvæmt þeim yfirlýsingum sem eru komnar frá verkalýðshreyfingunni. En við teljum að við höfum náð að laga mestu óánægjuna meðal okkar félagsmanna og töldum að það væri ekki lengra komist.“

Að sögn Guðmundar fer samningurinn fljótlega í kynningu en kosningu um innihald hans lýkur 22. september.

Fyrri frétt mbl.is: „Viðræður þokast í rétta átt“

Guðmundur Ragnarsson formaður VM
Guðmundur Ragnarsson formaður VM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert