Skortur á túlkum ekki fyrirstaða

Það þarf ekki túlk til að lesa í neyð fólks …
Það þarf ekki túlk til að lesa í neyð fólks sem leggur líf og limi í hættu til að freista þess að skapa sér og fjölskyldum sínum betra líf. AFP

Á Íslandi eru um 5-7 einstaklingar sem hægt er að kalla til með litlum fyrirvara til að túlka fyrir flóttafólk frá Sýrlandi. Fleiri hafa starfað sem túlkar en eru nú komnir í aðra vinnu, og þá eru enn fleiri sem tala bæði arabísku og íslensku en hafa ekki setið námskeið hjá túlkaþjónustu.

Síðustu daga hefur fjöldi Íslendinga lýst yfir vilja til að taka á móti fólki sem hefur flúið heimaland sitt vegna átaka eða ofsókna. Straumurinn til Evrópu hefur verið hvað stríðastur frá Sýrlandi, en forsenda boðs um nýtt líf fjarri heimaslóðum er að ákveðin grunnþjónusta sé til staðar. Til hennar telst m.a. túlkaþjónusta.

mbl.is hafði samband við forsvarsmenn þriggja fyrirtækja sem bjóða túlkaþjónustu og þeir lögðu m.a. áherslu á muninn milli túlka og leiðbeinanda sem tala tungumál viðkomandi og aðstoða við aðlögun.

Amal Tamimi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Jafnréttishúss, segir vel á annan tug túlka sem geta þýtt milli arabísku og íslensku starfandi á Íslandi, en þeir sem geti túlkað fyrir fólk frá Sýrlandi eða Palestínu telji fimm til sjö. Undir þetta tekur Alexander Dungal, framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs, en hann segir fjölda þeirra sem séu í aðstöðu til að taka að sér verkefni með litlum fyrirvara í kringum fimm.

Amal leggur þó áherslu á að líkt og Íslendingar læri Sýrlendingar önnur tungumál í skóla.

„Ekki gleyma að margir munu tala ensku og einhver frönsku,“ segir hún. „Þetta verður ekki stórt vandamál. Í svona tilfelli þá hjálpa túlkarnir fyrst við að koma fólki í aðlögunarferli en eftir smá tíma; eins og ég sagði, ef þau kunna ensku eða annað tungumál, þá verður það í lagi,“ segir hún.

Amal hefur mikla reynslu af móttöku flóttamanna, en hún fluttist búferlum á Akranes þegar hún aðstoðaði hóp flóttamanna frá Írak við að hefja nýtt líf á Skaganum. Þá voru þær tvær sem voru 28 einstaklingum innan handar í níu mánuði; frá september og fram í maí. Hún segir það hafa gengið mjög vel.

Hið opinbera gerir engar formlegar kröfur til túlka

Alexander hjá Alþjóðasetri segir samfélagstúlkun og dómtúlkun yfirleitt unna í verktakavinnu, enda sé eftirspurnin eftir þjónustunni stopul. Undir samfélagstúlkun flokkast m.a. túlkun hjá lækni eða sýslumanni, en að sögn Alexanders er túlkurinn þá bókaður á þann fund og fer síðan að honum loknum.

„Hvernig ríkið ætlar að tækla þetta liggur eiginlega ekki fyrir. Hvort það ætlar að halda sig við þá stefnu að túlkaþjónustan eigi að vera hlutlaus og einkarekin, eins og gert var þegar Alþjóðahús var lagt niður. Þá náttúrulega yrði þetta að vera þannig að hvert einasta viðtal, hver einasti fundur, hvort sem það er í leikskóla eða skóla eða hjá sýslumanni eða lögfræðingi; þá yrði bara pantaður túlkur fyrir það eitt og sér,“ segir Alexander.

Hann segir aðra leið að útvega fólki tengilið eða ráðgjafa sem myndi þá gera fleira, t.d. sinna menningarkennslu og samfélagsþjálfun.

Spurður að því hvort það flæki ekki málin að dreifa fólki um landið, með tilliti til þess að túlkarnir eru ekki fleiri en raun beri vitni, jánkar Alexander.

„Fjarfundartúlkun er eitthvað sem við höfum verið að þróa og prófa og virkar ágætlega, en aldrei jafnvel og að vera á staðnum, þar sem öll líkamstjáning er eðlilegri og öll túlkun í meira en bara orðin skilar sér miklu betur. Símtúlkun er lélegri túlkun einfaldlega af því að svipbrigði og líkamstjáning skila sér ekki,“ segir hann, en ítrekar að ýmis önnur rök geti legið til þess að dreifa fólki í stað þess að finna því öllu heimili í sama bæjarfélagi.

Alexander segir engar formlegar kröfur gerðar til túlka, þeir þurfi hvorki að hafa lokið ákveðnu námi né gráðu. Hins vegar séu gerðar ákveðnar kröfur til þeirra fyrirtækja sem bjóða upp á túlkaþjónustu þegar útboð fara fram og Alþjóðasetur vinni t.d. samkvæmt ISO 9001-staðli, en það felur í sér að fólk situr starfsviðtal, prufur og námskeið áður en það kemst á lista fyrirtækisins yfir túlka.

Túlkurinn verður að gæta hlutleysis og má ekki aðstoða að öðru leyti

Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri InterCultural Iceland, segir fjölda starfandi túlka enga hindrun hvað varðar móttöku flóttafólks. Fjöldi fólks tali bæði íslensku og arabísku þótt það starfi ekki sem túlkar, og þá séu margir sem tala ensku og arabísku. „Þess vegna segi ég að þó svo að núna sé ekki þörf fyrir meira en einhvern ákveðinn fjölda sem ákveður að verða túlkar þá er ekki þar með sagt að það sé ekki fólk í landinu sem væri hægt að þjálfa í að vera túlkar ef nauðsyn krefur,“ segir hún.

Hvað varðar dreifingu fólksins segir Guðrún mögulegt að túlka gegnum síma og þá myndu túlkarnir ferðast á milli. Hún leggur áherslu á að starf túlksins snúi eingöngu að því að túlka.

„Jafnvel þótt þú sért samfélagstúlkur máttu ekki gera neitt annað en túlka; þú mátt ekki aðstoða eða hjálpa eða leiðbeina eða skipta þér af neinu á nokkurn hátt,“ segir hún. „Túlkurinn þarf að fylgja mjög stífum reglum um að bara túlka.“

Hún segir aðstoðarfólk, sem talar tungumál viðkomandi og leiðbeinir við aðlögun, ekki hlutlaust líkt og túlkurinn þarf að vera. „[Aðstoðarmanneskjan] tengist fólkinu og aðstoðar á margvíslegan hátt. Svo stundum þarf kannski að fara í viðtal þar sem þarf hlutlausan túlk og þá er pantaður túlkur. Af því að þessi hlutverk eru ólík. Það gætir kannski stundum misskilnings varðandi hlutverk túlksins, sem fer í gegnum námskeið meðal annars til að læra að segja aldrei neitt frá eigin brjósti og vera bara alveg hlutlaus.“

Það er ekki sama arabíska og arabíska, en að sögn …
Það er ekki sama arabíska og arabíska, en að sögn Alexanders geta þeir sem hafa lært svokallaða skólaarabísku, þ.e. kunna bókmálið, yfirleitt skilið hvorn annan. Hins vegar getur það skapað vandamál þegar fólk talar mjög svæðisbundið talmál eða „götumál“. AFP
Ungir menn frá Sýrlandi og Afganistan klappa saman lófum á …
Ungir menn frá Sýrlandi og Afganistan klappa saman lófum á mótmælum í Búdapest og krefjast þess að fá að ferðast til Þýskalands. Þeir sitja fastir þar sem aðallestarstöðinni í borginni hefur verið lokað. AFP
Fólk hefur slegið upp tjaldbúðum við skrifstofu útlendingayfirvalda í Brussel.
Fólk hefur slegið upp tjaldbúðum við skrifstofu útlendingayfirvalda í Brussel. AFP
Í sumar höfðu um 5.500 Sýrlendingar ferðast til Ítalíu um …
Í sumar höfðu um 5.500 Sýrlendingar ferðast til Ítalíu um Miðjarðarhaf og 88.000 til Grikklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert