Á sæköttum yfir Gíbraltarsund

Týr á siglingu í Miðjarðarhafi síðasta vetur.
Týr á siglingu í Miðjarðarhafi síðasta vetur. ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Þetta er mikill lærdómur,“ segir Einar H. Valsson, skipherra varðskipsins Tý, um verkefni varðskipsins sem er nú við eftirlitsstörf í Miðjarðarhafi fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Skipið verður þar að störfum næstu mánuði en þetta er í sjötta árið sem Gæslan sinnir slíkum verkefnum.

Týr sigldi frá Íslandi 21. ágúst sl. og kom til Spánar átta dögum síðar. Formleg eftirlitsstörf hófust 1. september og í fyrstu mun skipið sinna verkefnum milli Spánar, Marokkó og Alsír. Í nóvember heldur skipið til Ítalíu og þar sem það mun starfa þar undan ströndum Ítalíu og Sikileyjar út árið, en þar var Týr einnig að störfum síðasta vetur. Í verkefnum sínum fyrir Frontex hefur áhöfnin á Tý bjargað þúsundum flóttamanna, þar af fjölda barna.

Fjölbreytt verkefni

„Fyrst og fremst eru verkefnin þessi eftirlit með ytri landamærum Evrópusambandsins og Schengen. Síðan þessi björgunarmál sem við vorum í síðasta vetur áhangandi hluti af því,“ segir Einar í samtali við mbl.is, og bætir við að áhöfnin hafi ávallt nóg fyrir stafni. 

Aðspurður segir hann að áhöfnin hafi enn sem komið er ekki tekið þátt í neinum björgunaraðgerðum. Þá bendir hann á, að verkefnin á þessum slóðum sé annars eðlis en við Ítalíu og Grikkland. T.d. reyni fólk að komast yfir Gíbraltarsundið á mun minni bátum, jafnvel leikfangabátum og sæköttum.

„Svo er þetta eftirlit með allskonar vörum. Að fylgjast með því hvort eitthvert ólöglegt athæfi sem að fer fram hérna milli heimsálfanna í rauninni. Það er ekkert endilega flóttafólk; það getur verið allskonar ólöglegur flutningur hér á milli eða ólöglegt athæfi.“

Einar segir að Týr sé að störfum austarlega á umræddu hafsvæði sem sé tiltölulega stórt, en að flest verkefni komi upp vestanmegin. 

Góð blanda af reynslu og nýliðum

Alls eru 19 í áhöfn skipsins, 18 frá Landhelgisgæslunni og einn maður frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Við bætist fulltrúi frá spænskum yfirvöldum. 

 Verkefnið stendur yfir í marga mánuði. Flestir eru alls fjórar vikur um borð og svo tvær vikur í fríi. „Við skiptum sirka um helminginn á áhöfninni á tveggja vikna fresti,“ segir Einar.

„Menn eru nokkuð vel gíraðir í þetta. Þetta er sjötta árið okkar í þessu og sumir búnir að vera meira og minna í þessu allan tímann. En svo erum við náttúrulega líka með fólk sem er búið að vera styttri tíma líka og sumir að byrja. Þetta er góð blanda af reynslu og nýliðum,“ segir Einar.

Aðspurður segir Einar mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna að komast í svona eftirlitsverkefni fjarri heimahögum. „Við erum að afla okkur reynslu og þekkingar sem við vonandi þurfum aldrei að nýta heima, en það er gott að hafa hana í handraðanum ef við þurfum á henni að halda,“ segir hann. 

„Sem betur fer hefur ekki verið neinn hasar í þessu og vonandi verður ekki. En við höfum alveg í nógu að snúast. Við höldum áfram í okkar þjálfunarprógrammi og viðhalda skipi og áhöfn,“ segir Einar að lokum.

Hér sjást liðsmenn Gæslunnar aðstoða lítinn dreng.
Hér sjást liðsmenn Gæslunnar aðstoða lítinn dreng. ljósmynd/Landhelgisgæslan
Hér sést Einar H. Valsson skipherra taka á móti fulltrúum …
Hér sést Einar H. Valsson skipherra taka á móti fulltrúum Frontex í Almeria á Spáni sem voru með kynningu fyrir áhöfn skipsins á verkefninu framundan nú í september og í október. ljósmynd/Landhelgisgæslan
Varðskipið Týr hélt til Miðjarðarhafsins fyrir hálfum mánuði. Hér sjást …
Varðskipið Týr hélt til Miðjarðarhafsins fyrir hálfum mánuði. Hér sjást þeir Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Auðunn Friðrik Kristinsson,verkefnastjóri á aðgerðasviði. mbl.is/Árni Sæberg
Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Einar H. Valsson skipherra …
Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, og Einar H. Valsson skipherra ræddu málin skömmu áður en Týr lagði af stað. Til hliðar við þá ræða málin þeir Auðunn Friðrik Kristinsson verkefnastjóri á aðgerðasviði og Ottó Þórðarson varðstjóri hjá lögreglunni sem er í áhöfn nú. mbl.is/Árni Sæberg
Gæslan hefur komið fjölmörgum til bjargar á Miðjarðarhafi. Frá aðgerðum …
Gæslan hefur komið fjölmörgum til bjargar á Miðjarðarhafi. Frá aðgerðum í fyrra. ljósmynd/Landhelgisgæslan
Í verkefnum sínum fyrir Frontex hefur áhöfnin á Tý bjargað …
Í verkefnum sínum fyrir Frontex hefur áhöfnin á Tý bjargað þúsundum flóttamanna, þar af fjölda barna. ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert