Ásættanlegt að loka neyðarbrautinni

Horft yfir Reykjavíkurflugvöll og athafnasvæði Vals.
Horft yfir Reykjavíkurflugvöll og athafnasvæði Vals. mbl.is/Þórður

Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur segir að áhættmat Isava vegna lokunar neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli sýni fram á að með mildunarráðstöfunum sé ljóst að ásættanlegt sé að loka brautinni. Fulltrúar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins segja forsendur áhættumatsins ófullnægjandi.

Kynning á áhættumati vegna lokunar flugbrautar 06/24, neyðarbrautarinnar svokölluðu, á Reykjavíkurflugvelli var kynnt á fundi borgarráðs í gær, að því er fram kemur í fundargerð.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram bókun á fundinum þar sem segir, að í samræmi við nýsamþykkta upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar segi að „ákvarðanir þurfa að byggjast á bestu fáanlegu upplýsingum og almenningur og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að vera vel upplýstir um ákvarðanir og forsendur þeirra“.

„Hér kristallast ágreiningur borgarfulltrúa um málið en Framsókn og flugvallarvinir telja forsendur áhættumats ISAVIA um lokun brautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli séu ekki fullnægjandi, því þar eigi m.a. að taka tillit til áhrifa lokunar á flugvallarkerfi landsins í heild sinni, almannavarna, áhrifa á sjúkraflutninga, fjárhaglegra áhrifa á flugrekstur og að taka hefði átt tillit til hliðarvindsstuðuls 10 hnúta er varðar ákveðnar tegundir flugvéla sem í dag sinna sjúkraflugi. Þrátt fyrir þann ágreining um forsendur er ákvörðun um lokun neyðarbrautarinnar alltaf Innanríkisráðuneytisins eins og lög gera ráð fyrir og staðfest hefur verið á fundi okkar hér í dag,“ segir í bókunninni.

Framtíð neyðarbrautarinnar í höndum innanríkisráðherra

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu einnig fram bókun á fundinum. Þar segir, að áhættumat Isavia nái ekki til þess hvaða áhrif lokun svokallaðrar neyðarbrautar (06/24) hefði á samgöngu- og flugvallarkerfi landsins.

„Það nær ekki til almannavarna, öryggissjónarmiða né áhrifa á sjúkraflutninga. Áhættumatið nær ekki til fjárhagslegra áhrifa á flugrekstur né efnahagslegra áhrifa almennt. Í áhættumatsskýrslunni er áréttað að framtíð neyðarbrautarinnar er í höndum innanríkisráðherra,“ segja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata segja í sameiginlegri bókun, að öryggisúttekt Isavia um lokun þriðju brautarinnar dragi fram að óhætt sé að loka brautinni þegar horft sé til viðmiða Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO).

Mikilvægt að flugbrautinni verði lokað

„Notkunarstuðull reiknast 97% en alþjóðlegt viðmið er að hann eigi ekki að fara niður fyrir 95%. Þegar metnar eru raunverulegar aðstæður, byggt á nákvæmum vindmælingum, ástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð og raunverulegri notkun í innanlandsflugi og sjúkraflugi er nýting vallarins miðað við að þriðju brautinni sé lokað enn betri, eða vel yfir 98%. Lækkun nýtingar vegna lokunar þriðju brautarinnar reiknast um 0,6%,“ segir í bókuninni.

„Öryggisúttektin sýnir þannig fram á að ljóst er að með mildunarráðstöfunum er ásættanlegt að loka þriðju brautinni. Mikilvægt er að það gangi eftir, í samræmi við samninga ríkis og borgar þar um á undanförnum árum, nú síðast samning Reykjavíkurborgar og ríkisins sem samþykktur var einróma í borgarráði þann 31. október 2013,“ segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert