Besta veðrið norðaustanlands

Veðurstofa Íslands.
Veðurstofa Íslands. mbl.is/Eggert

„Þetta er ekki góð útileguhelgi fyrir Suður- og Vesturland,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is spurður um spána fyrir helgina. Besta veðrið verði fyrir austan Höfn í Hornafirði og austan Eyjafjarðar. Það verði klárlega besti staðurinn til þess að vera á segir hann.

„Það er að koma rigning í nótt og það mun rigna nokkuð hraustlega sunnan- og vestantil á landinu. Hins vegar verður þurrt og bjart fyrir norðan og sæmilega hlýtt. Sunnudagurinn verður ágætur að megninu til en síðan um kvöldið fer úrkoman að aukast aftur sem verður nær bundið við landið vestanvert og einnig eitthvað á Suðurlandi.“

Spáin næstu daga gerir annars ráð fyrir vaxandi suðvestanátt á landinu í kvöld með rigningu norðvestan- og vestanlands. Vindur verður 8-15 metrar á sekúndu í nótt og á morgun og víða riging eða súld með morgninum. Hvassast verður á annesjum norðvestantil á landinu og við suðausturströndina. 

Ennfremur er útlit fyrir talsverða úrkomu norðvestan- og vestanlands um tíma í fyrramálið. Hins vegar dregur úr úrkomu um allt land annað kvöld. Hiti verður á bilinu 3-10 stig í nótt, en 10-18 á morgun. Svalast vestast á landinu.

Suðlæg átt verður á landinu á sunnudaginn, 8-13 metrar á sekúndu. Þá verður skýjað og dálítil rigning eða súld vestantil en hægari vindur og léttskýjað á austanverðu landinu. Hiti verður á bilinu 10-20 stig og hlýjast austanlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert