Börn efnaminni foreldra eru síður á leikskóla

Leikskólabörn við Reykjavíkurtjörn.
Leikskólabörn við Reykjavíkurtjörn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Velferðarvaktin hefur lagt til við Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, að ráðist verði í tilraunaverkefni sem miðar að því að styrkja stöðu einstæðra foreldra sem eru notendur fjárhagsaðstoðar með hagsmuni barna þeirra að leiðarljósi. Siv Friðleifsdóttir formaður Velferðarvaktarinnar gerði ráðherra grein fyrir tillögunni á fundi í velferðarráðuneytinu dag.

Á vef velferðarráðuneytisins kemur fram að Eygló segi tillögu Velferðarvaktarinnar falla vel að þeim hugmyndum sem kynntar verða í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu. Verkefnið sé mikilvægt og varði hóp í viðkvæmri stöðu sem þurfi að efla: „Ég vonast til að sveitarfélögin taki vel í samstarf eins og hér er lýst og mun hafa samband við þau hið fyrsta til viðræðu um málið,“ er haft eftir ráðherranum.

Kanna áhrif atvinnustöðu foreldra á börn

Velferðarvaktin hefur skoðað hvernig efla megi úrræði fyrir einstæða foreldra og börn þeirra. Er það í samræmi við skipunarbréf vaktarinnar þar sem áhersla er lögð á að hún skuli huga að velferð og afkomu efnalítilla barnafjölskyldna, sérstaklega einstæðra foreldra og barna þeirra og afla upplýsinga um aðstæður þeirra sem búa við sára fátækt svo draga megi úr henni.

Tilraunaverkefnið sem Velferðarvaktin leggur til að ráðist verði í byggist á niðurstöðu rannsóknar sem Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd gerði í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, að beiðni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Markmiðið var að bera saman efnahagslegar og félagslegar aðstæður reykvískra barnafjölskyldna eftir atvinnustöðu þeirra. Annað markmið var að kanna hvort atvinnustaða foreldra hefur áhrif á þátttöku barna þeirra í íþrótta- og tómstundaiðkun. Að lokum var markmiðið að kortleggja hindranir foreldra sem fá fjárhagsaðstoð til að nýta sér þjónustu er varðar börn þeirra.

Taka síður þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna m.a. að börn efnaminni foreldra taka síður þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, eru síður á leikskóla og hafa síður aðgang að félagslegu tengslaneti almennt samanborið við börn efnameiri foreldra.

Velferðarvaktarin telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög efli svokölluð virkniúrræði þar á meðal gagnvart einstæðum foreldrum svo þeim og börnum þeirra reiði betur af. Því leggur vaktin til að félags- og húsnæðismálaráðherra, í samvinnu við sveitarfélögin, finni leiðir til að hefja tilraunaverkefni, sambærilegu því sem lýst er í fyrrnefndri rannsókn, sem taki til a.m.k. fimm ára og feli í sér fjölþættan stuðning við einstæða foreldra sem eru notendur fjárhagsaðstoðar. Verkefnið hefur vinnuheitið TINNA og er lýst á eftirfarandi hátt í rannsókninni:

 „Verkefnið þarf að fela í sér menntunarmöguleika og/eða starfsþjálfun með það að markmiði að auka möguleika þessara ungu einstæðu mæðra til náms eða vinnu. Hugmynd að slíku úrræði felur í sér samþætta áætlun um menntun og/eða starfsþjálfun, fjárhagsstuðning, aðstoð vegna húsnæðismála, uppeldisráðgjöf og sérfræðiþjónustu. Jafnframt sé hugað að fjárhagsstuðningi og sérfræðiþjónustu vegna barna þeirra. Mikilvægt er að í upphafi fari fram greining á líðan og aðstæðum kvennanna, og hentar EMS matsskalinn vel til þess. Á grundvelli matsins verði síðan gerð einstaklingsáætlun til að mæta mismunandi þörfum hvers og eins. Allan stuðning og þjónustu þarf að samþætta og samræma og því leggjum við áherslu á að í hverju máli verði málstjóri sem sjái um samhæfingu og samskipti við alla hlutaðeigandi aðila til hagsbóta fyrir konurnar sjálfar og aðra sem koma að endurhæfingu hennar.“

Velferðarvaktin bendir á að ýmis góð virkniúrræði eru fyrir hendi s.s. Kvennasmiðjan og Gæfuspor. Að mati Velferðarvaktarinnar er verkefnið TINNA mikilvæg viðbót, sérlega sniðið að einstæðum foreldrum og börnum þeirra. Velferðarvaktin telur að verkefnið eigi að ná til þeirra einstæðra foreldra (mæðra og feðra) og barna þeirra sem eru í mestri þörf fyrir aðstoð af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert