Engar breytingar fyrst um sinn

mbl.is

Samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands hefur nú verið samþykktur af eftirlitsaðilum og tekur formlega gildi í dag, 4. september 2015. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Þar segir að bankaráð Landsbankans hafi samþykkt samrunann á fundi sínum í dag en áður hafi fundur stofnfjárhafa sparisjóðsins veitt sitt samþykki.

„Sameinað fyrirtæki verður rekið undir nafni Landsbankans, starfsmenn sjóðsins verða starfsmenn Landsbankans, allar eignir og skuldbindingar sparisjóðsins renna inn í bankann og hann tekur við rekstri allra útibúa sjóðsins,“ segir ennfremur en Sparisjóður Norðurlands rekur útibú og afgreiðslur á Dalvík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Kópaskeri, Suðureyri og á Bolungarvík.

„Engar breytingar verða á þjónustu við viðskiptavini fyrst um sinn, útibú og afgreiðslur verða opin á sama tíma og jafnan, reikningsnúmer haldast óbreytt, kort gilda áfram og aðgangur að netbanka verður óbreyttur. Viðskiptavinum verða síðan sendar upplýsingar um þær breytingar sem samrunanum fylgja og mun starfsfólk Landsbankans leggja sig fram um að þær valdi sem minnstum truflunum.“

Viðskiptavinum er bent á að snúa sér til síns útibús eða þjónustuvers Landsbankans með fyrirspurnir. Þá sé hægt að fá svör við algengum spurningum vef bankans.

Þá segir að samkvæmt því samkomulagi sem fyrir liggi fái tofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðurlands greitt með hlutabréfum í Landsbankanum en heildarendurgjald til þeirra verði 594 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert