Flóttafólk berskjaldað fyrir mænusótt

„Það hefur ekkert tilfelli komið upp á árinu í Nígeríu... þannig að nú þarf að bíða í tvö ár í viðbót og þá gæti Nígería verið orðin mænusóttarfrí,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF, sem hóf í dag ásamt Te&Kaffi átakið Klárum málið: sem er sett til höfuðs mænusóttar eða lömunarveiki.

Bólusetning er eina leiðin til að hindra sjúkdóminn en mikill árangur hefur náðst í að útrýma honum algerlega og undanfarið hefur hann einungis verið landlægur í 3 löndum:  Afganistan, Pakistan og Nígeríu en árið 1988 voru löndin 125 talsins.

Á stríðssvæðum og í flóttamannabúðum eru börn berskjölduð gagnvart mænusótt. Tvö börn veiktust í Úkraínu fyrr í vikunni en það eru fyrstu tilfellin í Evrópu síðan 2010 og má rekja til þess hversu margir eru nú á flótta vegna átakanna í Úkraínu og hve hlutfall bólusetninga er lágt. Í Sýrlandi spruttu upp tilfelli í kjölfar stríðsins þar í landi.

„Mörg börn sem hafa neyðst til að leggja á flótta hafa misst af reglulegum bólusetningum og það er áhyggjuefni,“ segir Bergsteinn.

Safnað fyrir bólusetningum

Af hverjum seldum drykk dagana 4.-17. september gefur Te & Kaffi andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt. Einnig er hægt að senda sms-ið BARN í númerið 1900 og gefa þannig andvirði 40 bólusetninga (1.000 kr).

Eftir að byrjað var að bólusetja fyrir sjúkdómnum hér á landi árið 1956 tókst að útrýma honum hér á landi en hópur fólks sem veiktist af mænusótt á síðustu öld kom saman í dag. Þær Ásthildur Rafnar og Sigrún Hjartardóttir voru á meðal þeirra og þær segja sársaukann hafa verið mikinn. Þær geta þó þakkað fyrir að hafa fengið lækningu en hundrað manns lömuðust hér á landi í faraldrinum árið 1955.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert