Rio Tinto dró umboðið til baka

Frá álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Frá álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Ljósmynd/Alcan

Fundur í kjaradeilu starfsmanna álversins í Straumsvík og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og Rio Tinto Alcan sem átti að fara fram í dag var blásinn af eftir að höfuðstöðvar Rio Tinto drógu umboð samninganefndarinnar hér til baka. Þetta segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar starfsmanna.

Yfirvinnubann starsfmanna í álverinu hefur verið í gildi frá 1. ágúst en verkalýðsfélög þeirra afboðuðu verkfall sem átti að hefjast 1. september til þess að létta pressu á samningaviðræðunum. Gylfi segir að fyrir samningafund á mánudag hafi viðsemjendur starfsmanna lýst því hversu alvarleg staða fyrirtækisins væri og það þyldi ekki áframhaldandi aðgerðir mikið lengur.

„Við vorum að horfa til þess að fara í viðræður og klára þær og við vorum vel undirbúin til að fara í þær. Svo er formlegur samningafundur og þá áttum við von á einhverju útspili frá þeim en þau voru ekki með neitt,“ segir Gylfi.

Hlé var gert á viðræðunum en þegar þær voru teknar upp aftur óskuðu SA og Rio Tinto Alcan eftir frekara hléi á fundum til dagsins í dag til þess að skoða málið að nýju og koma með tillögur. Gylfi segir þetta hafa komið á óvart því áður hafi komið fram að reksturinn þyldi ekki lengri aðgerðir.

„Síðan hafði sáttasemjari samband við okkur í gær. Þá höfðu komið skilaboð frá samninganefnd SA og Rio Tinto um það að þeir hefðu ekki fengið heimild frá Rio Tinto til að leggja fram nýjar tillögur. Þar af leiðandi var fundinum frestað og það er ekki búið að boða nýjan fund,“ segir Gylfi.

Hann segir þetta í þriðja skipti sem höfuðstöðvar Rio Tinto úti afturkalli heimild samninganefndarinnar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert