Sá sami og hafði áður verið handtekinn

Mynd úr myndskeiði lögreglu.
Mynd úr myndskeiði lögreglu.

Maðurinn sem hefur játað ránið í skartgripaversluninni í verslunarmiðstöðinni Firði er sá sami og lögregla handtók nokkrum dögum eftir ránið. Verið er að endurheimta þá muni sem var stolið en verðmæti þeirra nemur á annan tug milljóna.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að manninum, sem er á fertugsaldri, hafi verið sleppt enda liggur játning fyrir. Hann segir að ekki þyki ástæða til að óska eftir farbanni yfir manninum sem er búsettur á Íslandi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti þann 3. ágúst upptöku úr öryggismyndavél verslunarmiðstöðvarinnar og óskaði eftir upplýsingum um manninn á myndunum sem grunaður var um innbrot í verslun í verslunarmiðstöðinni Firði aðfararnótt 2.ágúst.

„Um er að ræða karlmann í blárri Hummel íþróttapeysu. Hann er með derhúfu og er skygnið með íslensku fánalitunum. Eins er hann með bakpoka sem merktur er Hummel og HK (Handknattleiksfélag Kópavogs),“ sagði í tilkynningu frá lögreglunni. 

Í kjölfarið fundust föt sem talin eru hafa verið notuð af þjófnum á tveimur stöðum í miðbæ Hafnarfjarðar en þar fundust einnig umbúðir utan af hluta þeirra skartgripa sem stolið var.

Nokkrum dögum síðar var maður handtekinn og yfirheyrður af lögreglu í tengslum við ránið. Maðurinn neitaði sök á þeim tíma en hefur nú játað að sögn Margeirs.

Að sögn Margeirs komu fram frekari vísbendingar og fleiri gögn sem fundust við húsleitir og niðurstöður rannsókna tæknideildar. 

Margeir segir að unnið sé að því að endurheimta munina og meðal annars skoðað hvort eitthvað af skartinu hafi verið flutt úr landi. „Við erum búin að endurheimta eitthvað af mununum og enn verið að sækja muni úr ráninu,“ segir Margeir. 

Skartgriparánið í Firði upplýst

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert