Spiluðu handbolta í myrkrinu

Íslendingar fögnuðu ákaft eftir að Gylfi Þór Sigurðsson náði að …
Íslendingar fögnuðu ákaft eftir að Gylfi Þór Sigurðsson náði að setja mark sitt á leikinn. Margir Vestmannaeyingar misstu þó af markinu. AFP

Rafmagnslaust varð í Vestmannaeyjum kl. 16.08 í gær þegar varaspennirinn í Rimakoti leysti út. Ákveðið var að keyra út varaafl með díselvélum en þar sem það gekk erfiðlega varð víðtækt rafmagnsleysi á eyjunni um tíma. 

Talið er að útleysing á spenni í Rimakoti hafi orsakast af álagi sem skapaði þrýsting í búnaði í spenninum. Spennirinn hefur verið undir töluverðu álagi síðan hann var tengdur til bráðabirgða í stað spennis sem bilaði þann 11. ágúst síðastliðinn, segir í tilkynningu frá Landsneti.

Margir misstu því af marki Gylfa Sigurðssonar, veitingahúsaeigendur gátu ekki afgreitt viðskiptavini sína, iðkendur ÍBV spiluðu fótbolta í myrkrinu og viðskiptavinir Krónunnar urðu frá að hverfa tómhentir. 

Leitar réttar síns vegna tjónsins

Eigandi veitingastaðarins 900 grillhúss situr eftir með sárt ennið eftir gærkvöldið en hún varð fyrir töluverðu tjóni vegna rafmagnsleysisins. Hafði hún gert ráðstafanir vegna leiksins og fengið aukamannskap á vaktina til að anna álaginu sem er allajafna á staðnum þegar viðburður sem þessi er í gangi. Það varð þó lítið um veitingasölu í gær.

„Þetta er auðvitað rosalega óþægilegt. Maður var búinn að gera ráðstafanir vegna leiksins, ég var með fullt af auka starfsfólki og svo er ekkert hægt að gera,“ segir Jóhanna Inga Jónsdóttir, eigandi 900 grillhúss í Vestmannaeyjum.

Jóhanna Inga segist hafa orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni þar sem hún hafi ekki getað afgreitt viðskiptavini sína og þurfi að greiða starfsfólki laun fyrir vinnu sem það gat ekki unnið. Þá er ekki vitað hvort skemmdir hafi orðið á raftækjum á staðnum. Hún hyggst ræða við lögfræðing í dag og kanna rétt til bóta vegna tjónsins.

Missti af marki Gylfa

Fótboltaáhugamenn í Vestmannaeyjum voru ekki ánægðir með rafmagnsleysið í gær en rafmagnið fór af stórum hluta bæjarins klukkan fjögur og kom það ekki aftur á fyrr en um tíuleytið. Margir misstu því af þegar Gylfi Sigurðsson skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

Frétt mbl.is: Misstu af miklum hluta leiksins

„Rafmagnið fór af á fertugustu mínútu. Ég missti af markinu og síðan kom rafmagnið aftur inn á sextugustu mínútu. Maður sá á netinu að það hefði verið víti og var að reyna að hlusta á útvarpið en það var mjög óskýrt,“ segir Páll Eydal Ívarsson sem er búsettur í Vestmannaeyjum.

Rafmagnsleysið hafði einnig áhrif á æfingar hjá ÍBV í gær og spilaði Páll ásamt öðrum liðsmönnum handbolta í myrkrinu. „Við spiluðum í myrkri hálfa æfinguna en reyndum að bjarga okkur með því að opna út til að hleypa smá birtu inn,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Viðskiptavinir urðu frá að hverfa

Lítið gekk að afgreiða viðskiptavini Krónunnar í Vestmannaeyjum eftir klukkan fjögur í gær, enda ganga afgreiðslukassar verslunarinnar fyrir rafmagni. Verslunarstjóri búðarinnar segir að talsvert af fólki hafi verið í versluninni þegar rafmagnið fór út.

Fyrst um sinn biðu viðskiptavinir rólegir enda kemur fyrir að rafmagnið detti út í nokkrar mínútur. Þegar ljóst var í hvað stefndi urðu þeir frá að hverfa, tómhentir.

Steinþór Skúlason verslunarstjóri segir að eitthvað tjón hafi orðið vegna rafmagnsleysisins þar sem ekki var hægt að afgreiða viðskiptavini en vill þó ekki gefa upp hversu mikið það er.

Frétt mbl.is: Rafmagn fór af vegna bilunar í tengivirki

Frétt mbl.is: Rafmagnslaust í Vestmannaeyjum

Rafmagnsleysið hafði töluverð áhrif í Vestmannaeyjum í gær.
Rafmagnsleysið hafði töluverð áhrif í Vestmannaeyjum í gær. mbl.is/GSH
Viðskiptavinir Krónunnar í Vestmannaeyjum urðu frá að hverfa.
Viðskiptavinir Krónunnar í Vestmannaeyjum urðu frá að hverfa. Morgunblaðið/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert