Átti erfitt með að venjast myrkrinu

Hasna Boucham ásamt börnum sínum tveimur.
Hasna Boucham ásamt börnum sínum tveimur. Ljósmynd/Facebook

Hasna Boucham, 35 ára tölvunarfræðingur, tveggja barna móðir, íbúi á Sauðárkróki og marokkóskur og íslenskur ríkisborgari segist líta á það sem skyldu sínu að bjóða konu eða barni öruggt skjól á heimili sínu og aðstoð við athafnir dagslegs lífs.

„Við erum tilbúin að deila heimili okkar og matnum með einstaklingi, barni eða konu,“ skrifaði Hasna á Facebook-síðuna „Kæra Eygló – Sýrland kallar“ í vikunni en þar hefur fjöldi fólks boðið fram aðstoð sína. Hasna talar meðal annars arabísku og skilur mjög vel sýrlenska mállýsku.

Íslendingar svo góðir

Hasna flutti hingað frá Marokkó árið 2007 en þá var hún í sambandi með íslenskum karlmanni sem síðar varð eiginmaður hennar. Hún segist hafa þurft að íhuga vandlega hvort hún vildi flytja hingað þar sem hún var aðeins hálfnuð með háskólagráðu sína. Þó varð úr að hún kæmi hingað til lands.

Hasna kann mjög vel við sig hér á landi og þá sérstaklega á Sauðárkróki þar sem hún býr í dag ásamt börnum sínum tveimur sem eru tveggja ára og fimm ára.

„Íslendingar eru bara svo góðir,“ segir Hasna um það hvernig var að koma hingað til lands. Hún segir að erfitt hafi verið að venjast myrkrinu og kalda vetrinum og þá væri hentugra að þurfa aðeins að taka eitt flug þegar hún heimsækir heimaland sitt.

Við erum þrjú, getum verið fjögur

Hasna segist vissulega ekki hafa mikið á milli handanna en hún geti þó boðið herbergi á öruggu heimili. „Þetta er skylda mín,“ segir hún, aðspurð um ástæðu þess að hún bauð fram aðstoð sína. Í heimalandi Hösnu sé áhersla á að fólkið verði að aðstoða þá sem þurfi á því að halda.

Hún segist vissulega hafa vitað að átökum í heiminum síðustu ár en núna þegar fréttir af hörmunum í Sýrlandi séu út um allt, á frétta- og samfélagsmiðlum, sé afar erfitt að líta undan. Þá reynist henni sérstaklega erfitt að horfa á myndir af börnum.

„Þegar þú ert móðir ímyndar þú þér börnin þín í þessum aðstæðum. Þú verður að hjálpa fólkinu, þú þarft ekki að spyrja sjálfan þig. Ég hef ekki mikið en ég á öruggt heimili og ég vil deila því,“ segir Hasna. „Við erum þrjú, við getum verið fjögur. Þetta er bara eins og ef ég ætti þrjú börn, sem ég myndi hugsanlega eiga ef ég væri enn með manninum mínum.“

Frétt mbl.is: „Kalt land, hlý hjörtu“

Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Beirút.
Sýrlensk börn í flóttamannabúðum í Beirút. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert