Brynhildur nýr stjórnarformaður

Brynhildur S. Björnsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur S. Björnsdóttir stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.

Brynhildur S. Björnsdóttir hefur verið kjörin nýr stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Hún er varaþingmaður flokksins og starfaði sem gjaldkeri flokksins á liðnu ári. Brynhildur hlaut meirihluta atkvæða í fyrri umferð kjörsins eða 61% atkvæða og því þurfti ekki að kjósa í síðara skiptið. Samtals greiddu 122 atkvæði.

Fjórir voru í framboði en niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru eftirfarandi:

Brynhildur S. Björnsdóttir - 75 atkvæði

Guðlaug Kristjánsdóttir - 35 atkvæði

Preben Pétursson - 8 atkvæði

Matthías Freyr Matthíasson - 3 atkvæði

Auðir seðlar - 1 atkvæði

Í ræðu sinni að kjöri loknu sagði Brynhildur S. Björnsdóttir að verk væri að vinna og að hún hlakkaði mikið til þess að vinna það með Óttarri Proppé en hann er nýkjörinn formaður Bjartrar framtíðar.

Í samtali við mbl.is segir Brynhildur að flokkurinn, sem standi henni svo nærri, eigi mikið inni. „Við erum að vaxa og þroskast, ég held að við Óttarr verðum frábært teymi,“ segir Brynhildur. Hún segir að sitt fyrsta verk sem stjórnarformaður verði að tala við fólk.  

„Það er alveg ljóst að skilaboðin okkar eru ekki að ná í gegn, fólk annað hvort skilur þau ekki eða heyrir þau ekki og það er bara verkefni til að vinna,“ segir Brynhildur og tekur fram að flokkurinn hafi ef til vill ekki verið nógu duglegur við að segja frá því sem hann hefur gert, hvorki í sveitarstjórnum né í landsmálunum. Nú þurfi markvisst að segja frá því gagni sem flokkurinn hefur gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert