Ók utan í vegfarendur

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu skömmu fyrir klukkan sjö um ökumann á bifreið sem ók utan í gangandi vegfaranda í vesturbæ Reykjavíkur.

Stuttu seinna var maðurinn handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Vitni voru að akstrinum og gátu þau bent lögreglu á manninn þar sem hann hafi farið inn á veitingarstað í miðborginni. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Ennfremur var tilkynnt um ökumann á ellefta tímanum í gærkvöldi sem hugsanlega væri ölvaður. Þær upplýsingar fylgdu að bifreiðin hefði verið skilin eftir og tveir menn gengið á brott. Stuttu síðar handtók lögreglan tvo menn sem grunaðir eru um að hafa verið í bifreiðinni.

Talsvert var um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt og hafði lögreglan afskipti af fjölmörgum ökumönnum vegna þess. Þrír ökumenn reyndust ennfremur hafa áður verið sviptir ökuréttindum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert