Ósamhljóða um dánarorsök

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. Ómar Óskarsson

Greinargerðir yfirmatsmanna um dánarorsök Sigurðar Hólm Sigurðsson, fanga á Litla-Hrauni, árið 2012 er ekki samhljóða niðurstöðu undirmatsmanna um að högg eða spark hafi leitt til dauða hans, að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, saksóknara í málinu. Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða fangans.

Fréttastofa RÚV segir hafa heimildir fyrir því að erlendir yfirmatsmenn sem fengnir voru til þess að fara yfir dánarorsök Sigurðar telji ólíklegt að hann hafi látist af völdum manna þó að ekkert sé hægt að útiloka. Í samtali við mbl.is segist Helgi Magnús ekki geta staðfest þetta eða tjáð sig um efnisatriði málsins að þessu leyti. Greinargerðum yfir- og undirmatsmanna hafi þó ekki borið saman.

„Ég get staðfest það að þær eru ekki samhljóða niðurstöðum undirmatsmannanna. Það verður væntanlega að íhuga hvaða áhrif það hefur ef einhver og hlýtur þá að koma fram í málflutningi,“ segir Helgi Magnús.

Niðurstaða undirmatsins sem ákæran gegn Annþóri og Berki byggir á var sú að Sigurður hafi dáið af völdum blæðinga frá milta. Undirmatsmenn töldu að Sigurði hafi verið veitt högg eða spark sem hafi valdið blæðingunni. Upptökur öryggismyndavéla sýndu Annþór og Börk fara inn í klefa Sigurðar skömmu áður en hann kenndi sér meins og lést í kjölfarið.

Frétt RÚV um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert