Vilja skýringar frá HS veitum

Frá Rimakoti sunnudaginn 6. september.
Frá Rimakoti sunnudaginn 6. september.

Landsnet hefur farið fram á skýringar frá HS Veitum á stöðu varaafls í Vestmannaeyjum en eins og flestir í Eyjum hafa orðið varir við hafa truflanir á afhendingu rafmagns valdið notendum þar töluverðum óþægindum undanfarið.

Frétt mbl.is: Spiluðu handbolta í myrkrinu

Ástæðan er röð bilana, fyrst í spenni í Rimakoti 11. ágúst sl og síðan í varaspenni þar sl. fimmtudag, á meðan á landsleik Íslendinga við Hollendinga stóð. Margir í Eyjum voru því uggandi um að svipuð staða gæti komið upp fyrir leikinn á sunnudag en þá var búið að skipuleggja að skipta út varaspenninum í Rimakoti fyrir aðalspenninn, sem búið var að gera við eftir að hann bilaði í ágúst sl.

Frétt mbl.is: Eyjamenn bíði með kleinubaksturinn

Til að tengja spenninn þurfti að rjúfa orkuafhendingu til Eyja frá flutningskerfi Landsnets snemma á sunnudagsmorgun og á meðan framleiddu dísilvélar í Eyjum varaafl fyrir forgangsorkunotendur þar. Ákveðin hætta var talin á rafmagnstruflunum í Vestmannaeyjum þar sem afhending varaafls frá HS Veitum hafði ekki gengið sem skyldi undanfarið. Var því búið að biðja íbúa um að fara sparlega með rafmagnið þar sem reiknað var með því að vinna við tengingu spennisins í Rimakoti gæti staðið alveg fram á sunnudagskvöld. Annað kom þó á daginn því klukkan 16:36 á sunnudag var tengingu spennisins lokið – og afhending rafmagns til íbúa í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og í Mýrdal komin aftur í eðlilegt horf, segir í tilkynningu frá Landsneti um málið.

Í kjölfar þessara atburða hefur Landsnet sent bréf til HS Veitna og óskað eftir skýringum á stöðu varaafls í Vestmannaeyjum þar sem umsamið varaafl sem Landsnet kaupir af HS Veitum hefur ekki reynst áreiðanlegt þegar á hefur reynt, hvorki varðandi magn eða áreiðanleika. Landsnet lítur slíkt alvarlegum augum því það tryggir öryggi og gæði við raforkuafhendingu meðal annars með varaaflssamningum. Því verður að vera hægt að treysta á að umsamið varafl sé í lagi þegar þarf að grípa til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert