Góða lögga landsliðsins

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Eggert Jóhannesson

„Við erum ólíkir, ég er sterkari á sumum sviðum og hann á öðrum en við leyfum hvor öðrum að njóta sín og erum aldrei að reyna að skyggja á hvor annan,“ segir Heimir Hallgrímsson um landsliðsþjálfun sína og Lars Lägerback á karlaknattspyrnuliði Íslands en saman létu þeir draum Íslendinga rætast um síðustu helgi; að tryggja Íslandi í fyrsta skipti í sögunni sæti á stórmót.

Heimir segir frá ferli sínum og lífi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina en þótt félagi hans Lagerbäck hafi kannski verið meira í sviðsljósinu standa þeir algjörlega jafnfætis í þjálfuninni og Heimir mun taka alfarið við liðinu eftir að EM lýkur á næsta ári.

Heimir var meðal annars spurður að því hvort hann sé ekkert fúll yfir því að Lagerbäck sé svona fyrirferðarmikill í sviðsljósinu og neitaði því.

„Fyrir mér er þetta ekki spurning um athygli. Lars á auðvitað svo ótrúlegan feril að baki og kemur hingað til lands sem stjarna sem allir þekkja. Það er eðlilegt að hann fái mikla athygli og ég er ósköp rólegur yfir því. Við stöndum jafnhliða í þessari þjálfun, erum báðir aðalþjálfara og ég hef næga trú á sjálfum mér til að láta þetta ekki fara fyrir brjóstið á mér. Það má segja aða við séum svolítið eins og Halli og Laddi - og ég er þá Halli - skilurðu?“ Heimir segir að það megi líka segja að stundum séu þeir eins og slæma löggan og góða löggan. „Good cop - bad cop“. „Reyndar finnst mér Halli og Laddi eiginlega lýsa okkur betur.

Það er kannski frekar að fjölskyldunni hafi sárnað stundum þegar það er einblínt á að Lars sé þjálfarinn og þeim finnst ég gleymast. En maður verður bara að skilja það að hann er karakter sem á mikla sögu að baki. Og að sjálfsögðu er hann sá sem breytti allri umgjörðinni hjá landsliðinu. Þessari rútínu sem við höfum unnið eftir og erum alltaf að bæta. Í gamla daga þegar við byggðum kofa eða söfnuðum í brennu átti alltaf einhver mest í kofanum.“

Meðþjálfari, fyrirliði landsliðsins, samstarfsfólk og vinir lýsa allir Heimi á einn hátt. Hann sé gáfaður, afar metnaðarfullur og skipulagður og með hjartað á réttum stað. Hans helsti kostur sé mikil færni í mannlegum samskiptum en Heimir er úr óvenjulegri átt; hann er tannlæknir og rekur tannlæknastofu í heimabæ sínum í Vestmannaeyjum.

„Ég gæti ekki ímyndað mér hvernig lífið væri ef ég væri alltaf að hugsa um það sama; að hugsa um endajaxlinn sem ég tók eða eitthvert tap í fótboltanum. Þegar maður tapar er til dæmis afar gott að vera bara tannlæknir - vera einhver annar í smá tíma.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert