Berjast fyrir verndun Þjórsár

Fossinn Búða.
Fossinn Búða. Ljósmynd/Verndum Þjórsá

Opnað hefur verið fyrir vefinn Verndum Þjórsá. Á vefnum eru upplýsingar um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsá en þar er Hvammsvirkjun næst á döfinni.

Að vefnum standa Sól á Suðurlandi, vefritið grugg.is og hópur áhugafólks um verndun Þjórsár og umhverfis hennar. Hópurinn segir að fjölmörgum spurningum sé enn ósvarað um áhrif virkjana í Þjórsá, til dæmis á lífríkið, fyrirsjáanlegt leirfok í héraðinu og möguleg áhrif á fasteignaverð, ferðaþjónustu, landbúnað og matvælaframleiðslu.  

Sigþrúður Jónsdóttir áhugakona um verndun Þjórsár segir ferlið vera búið að vera í gangi síðan 2007 en ákveðið var að ráðast í gerð síðunnar nú í sumar. „Við höfum gert ýmislegt á þessum tíma og nú var komin tími á heimasíðu til að upplýsa fólk um alvarleika þessara virkjanna eins og Hvammsvirkjunar,“ segir Sigþrúður.

Hún segir hópinn ekki hafa fengið alvöru áheyrn hjá ráðamönnum. „Við höfum farið á fundi og þeir taka ágætlega á móti okkur en taka þó ekkert mark á okkur. Það er eins og það sé búið að ákveða bak við tjöldin hvernig þetta skuli verða sama þó svo að mörg rök mæli gegn því.“ Síðan er liður í því að kynna efnið fyrir almenningi en sjálf segist Sigþrúður oft verða þess vör við að fólk geri sér ekki grein fyrir alvarleika framkvæmdanna þegar hún fer með það um svæðið. 

Þann 1. júlí 2015 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að Hvammsvirkjun skyldi flutt í orkunýtingarflokk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert