Brúðkaupum breytt vegna EM

Einhverjir gætu vissulega látið sér detta í hug að slá …
Einhverjir gætu vissulega látið sér detta í hug að slá bara saman herlegheitunum og halda EM-brúðkaup. Ljósmynd/Getty

Ævintýralegt gengi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu að undanförnu gæti haft í för með sér nokkuð óvenjulegar afleiðingar fyrir trúlofuð pör þessa lands. Júní mánuður er vanalega vinsæll tími til að ganga í það heilaga en gera má ráð fyrir að fáir vilji láta pússa sig saman ef athygli gesta er frekar á boltanum en á brúðhjónunum.

Blaðamaður mbl.is tók stikkprufu á þremur kirkjum og voru bókanir mjög misjafnar. Í Fríkirkjunni eru bókuð 11 brúðkaup á tímabilinu 10. júní til 10. júlí en í Háteigskirkju voru áberandi fleiri bókanir sitthvoru megin við mótið. Raunar höfðu engar bókanir borist fyrir laugardagana 11. 18. og 25. júní og tók kirkjuvörður undir með blaðamanni að það væri nokkuð óvenjulegt. Í Grafarvogskirkju var nokkuð um bókanir í apríl og maí. Engin bókun hafði hinsvegar borist fyrir júní mánuð eða byrjun júlí og fyrsta brúðkaupið sem bókað er eftir mótið er skráð 16. júlí.

Júní sleginn út af borðinu

„Það gengur ekki að halda brúðkaup þegar hálft Ísland er úti í Frakklandi,“ segir Hilmar Gunnarsson sem trúlofaðist unnustu sinni, Oddnýju Þóru Logadóttur, í sumar.

Parið hafði rætt um að ganga í það heilaga þann 11. júní á næsta ári en Hilmar segir að eftir leikinn gegn Hollandi hafi runnið upp fyrir honum að sú dagsetning væri annar dagur riðlakeppninnar. Júní mánuður var því sleginn út af borðinu hið snarasta enda eru margir af vinum parsins staðráðnir í að fara til Frakklands. Það kemur síðan ekki í ljós fyrr en í desember hvenær Ísland spilar og segir Hilmar ótækt að bíða svo lengi eftir því að sjá hvort brúðkaupsdagurinn og leikdagur hittist á.

 „Maður heldur ekki hundrað manns inni í kirkju þegar íslenska karlalandsliðið spilar fyrsta leik sinn á stórmóti. Þar fyrir utan getur það haft mikil áhrif á stemninguna ef Ísland tapar.“

Hilmar minnist þess að hafa farið í brúðkaup í fyrra sama dag og Gunnar Nelson átti bardaga og segir marga gesti hafa reynt að fylgjast með slagnum í símum og í bakherbergjum.

„Maður vill ekki  að neitt sé að trufla sig á þessum degi. Maður ætlar bara að gera þetta einu sinni og þá vill maður eiga daginn útaf fyrir sig.“

Jafnvel presturinn ætlar á EM

Særún Jónsdóttir viðurkennir að hún hafi ekki verið yfir sig ánægð með að þurfa að breyta brúðkaupsdeginum vegna Evrópumeistaramótsins en segir það þó hafa verið það eina í stöðunni. Bróðir brúðgumans, Hauks Valgeirs, sé nefnilega atvinnumaður í knattspyrnu og hafi verið viðloðandi landsliðshópinn á tímabilinu.

„Eins eigum við vini sem eru að vinna í kringum KSÍ og við viljum ekki að fólk þurfi að velja milli þess að fara út eða vera heima fyrir okkur,“ segir Særún.

Í vor bókuðu Særún og Haukur 18. júní 2016 sem brúðkaupsdaginn sinn í Lindakirkju en það var ekki nóg með að dagsetningin væri óheppilegt fyrir knattspyrnuunnendur meðal gesta. Stuttu eftir að ljóst var að Ísland ætti möguleika á að komast á EM lét presturinn þeirra þau nefnilega vita að hann myndi mögulega vilja fara til Frakklands, kæmi til þess að Ísland færi alla leið. Það var því fljótlega út séð að parið yrði að velja nýjan dag.

„Það er óþarfi að skella þessu saman fyrst þetta uppgötvaðist í tæka tíð. Við ætlum að færa þetta fram í maí, áður en þetta allt byrjar,“ segir Særún en hún segir í bili ekki standa til að fara í brúðkaupsferðina til Frakklands. „Það að er svo sem ekkert ákveðið. Við erum ekki farin að plana svo langt en maður veit aldrei.“

Kippa símunum upp eftir brúðarmarsinn

Fyrrnefndur prestur í Lindakirkju er Guðni Már Harðarson sem skellir upp úr þegar blaðamaður ber upp erindið við hann í símann en tekur undir að Evrópumótið muni hafa áhrif á brúðkaupsvertíðina.

„Ég hef nefnilega orðið var við það að það er minna um að fólk ætli að vera í júní og byrjun júlí og ég hef sjálfur verið að reyna að haga mínu sumarfríi þannig að ég verði í fríi.“

Hann segir mótshaldara ekki gera knattspyrnuunnendum sem vilja fylgja landsliðinu auðvelt fyrir þar sem mótið fer fram í þremur mismunandi borgum.

„Ég fór á Amsterdam-leikinn og það var auðvelt að segja við fjölskylduna að ég yrði frá í tvær nætur en þegar maður er með fimm manna fjölskyldu er erfitt að segjast ætla fara í tvær vikur,“ segir Guðni og hlær. „Við erum aðeins byrjuð að skoða hvort við getum gert ferð úr þessu fjölskyldan en ég hugsa að það sé raunhæfara að taka einn leik og svo restina í sjónvarpinu.“

Guðni segir að meðal þeirra presta sem hann umgengst hvað mest sé mikill fótboltaáhugi og að einhverjir þeirra gætu verið í áþekkum hugleiðingum. Segist hann þó sjaldnast hugsa út í það hvort það verði einmitt stórmót í gangi þegar hann samþykkir að gifta fólk, oft ár fram í tímann.

„Maður hefur alveg lent í því og tekur stundum eftir því að um leið og brúðarmarsinn hefst og parið gengur út þá fara símarnir á loft, svoheyrist kannski „Heyrðu Holland vann!!“. Maður verður var við þetta annað hvert ár þegar HM eða EM er í gangi.“

Guðni segir yfirleitt mjög mörg brúðhjón búin að bóka kirkju fyrir áramót en eins og áður segir er ekki dregið í riðlakeppnina fyrr en í desember og ekki ljóst fyrr en þá hvenær íslenska liðið á leiki. Fljótlega eftir áramót taka dagskrár presta að fyllast og erfiðara verður að finna sal og veisluþjónustu undir herlegheitin og þeir sem bíða fram í desember gætu þannig verið að tefla á tæpasta vað.

Hinsvegar gætu þeir sem kæra sig kollótta um knattspyrnu hugsanlega haft greiðari aðgang að þjónustu en ella, lendi leikir Íslands á laugardegi.

„Antisportistar geta valið úr helgidómunum,“ segir Guðni glettnislega að lokum.

Hilmar skellti sér á skeljarnar sumar í viðurvist fjölskyldu og …
Hilmar skellti sér á skeljarnar sumar í viðurvist fjölskyldu og vina. Ljósmynd/ Hilmar Gunnarsson
Særún og Haukur ákváðu að færa stóra daginn fram í …
Særún og Haukur ákváðu að færa stóra daginn fram í maí vegna EM. Ljósmynd/ Særún Jónsdóttir
Guðni Már segir mikinn knattspyrnuáhuga meðal þeirra presta sem hann …
Guðni Már segir mikinn knattspyrnuáhuga meðal þeirra presta sem hann umgengst hvað mest. Ljósmynd/ Lindakirkja.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert