„Mun engin áhrif hafa í Palestínu“

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sagði að Sjálfstæðismenn gætu …
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sagði að Sjálfstæðismenn gætu ekki stutt tillögu Bjarkar. mbl.is/Ómar

Tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael var samþykkt með meirihluta atkvæða í dag en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar þakkaði Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, Björk fyrir góða tillögu. Hann sagðist þó ekki viss um að það yrði endilega til góðs að sniðganga vörur frá Ísrael og að gögn bentu á að aukin viðskipti væru betur til þess fallin að stuðla að friði, heldur en sniðganga þeirra. Halldór sagði að jafnvel þó þetta væri síðasta tillaga Bjarkar og hún sett fram af góðum hug, gætu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki stutt hana.

„Tvískinnungur og hræsni af borgarstjórn“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu sinni að það væri tvískinnungur og hræsni af borgarstjórn að samþykkja tillöguna en að aðhafast ekkert þegar kemur að mannréttindabrotum í Kína. Benti hann á að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefði þegið utanlandsferð til Kína í boði þarlendra stjórnvalda, sem ættu sennilega heimsmetið í mannréttindabrotum.

Þetta var síðasta tillaga Bjarkar en hún hyggst nú halda út til Palestínu að sinna góðgerðastörfum. Tillagan var sett fram til þess að mynda þrýsting á Ísrael til þess að aflétta hernámi sínu á landsvæðum í Palestínu.  Í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í dag líkti Björk hernámi Ísraelsmanna við aðskilnaðarstefnu þá er viðhöfð var í Suður-Afríku á síðustu öld. Þá sagði hún að með samþykkt tillögunnar væri Reykjavíkurborg að styðja við fullveldi Palestínu og láta í ljós vanþóknun sína á aðskilnaðarstefnu Ísraelsmanna með friðsamlegum hætti.

Sjá frétt mbl.is um málið: Borg­ar­stjórn samþykkti sniðgöngu á ísra­elsk­um vör­um

Í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins segir að þeir taki eindregna afstöðu gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin í heiminum. Það hafi þó ekki verið hægt að taka undir þá tillögu sem fyrir liggur enda ekki sannfærandi rök um að inngrip af þessu tagi skili miklum árangri. Að allra síst muni innkaupabann á vörur frá Ísrael í Reykjavíkurborg hafa áhrif á stöðu íbúa til Palestínu til hins betra.

Tilkynningin í heild sinni:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka eindregna afstöðu gegn mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin í heiminum. Fulltrúarnir skilja og taka undir samúð Bjarkar Vilhelmsdóttur með hörmulegum aðstæðum og erfiðleikum fólks í Palestínu. Ekki er þó hægt að taka undir þá tillögu sem fyrir liggur enda ekki sannfærandi rök um að inngrip af þessu tagi skili miklum árangri. Innkaupabann mun engin áhrif hafa í Palestínu. Allra síst mun innkaupabann á vörur frá Ísrael í Reykjavíkurborg hafa áhrif á stöðu íbúa Palestínu til hins betra. Reynslan sýnir að slíkar aðgerðir loka á samskipti og útiloka farsælar lausnir. 

Lengi hefur verið sú hefð í borgarstjórn að fráfarandi borgarfulltrúi flytji kveðjutillögu á sínum síðasta fundi. Hefur tillagan þá verið borin undir alla borgarfulltrúa og leitað samkomulags. Því var ekki að heilsa í þetta sinn og er það miður að þannig hafi verið staðið að tillögunni. Þess er saknað að tillaga borgarfulltrúans tengist ekki velferðarmálum, þar sem mikilla umbóta er þörf, eins og borgarfulltrúinn hefur tjáð sig um nýlega. Björk Vilhelmsdóttir á að baki langa setu í borgarstjórn og býr yfir mikilli þekkingu á sviði velferðarmála en þeim hefur hún stýrt í mörg ár sem formaður velferðarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka góða samfylgd og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, sagði það tvískunnung og hræsni af borgarstjórn …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, sagði það tvískunnung og hræsni af borgarstjórn að samþykkja tillöguna. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert