Svíar taka upp Suðurnesjamódelið

Frá Reykjanesbæ á Suðurnesjum.
Frá Reykjanesbæ á Suðurnesjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Félags- og dómsmálayfirvöld í Vestur-Gautlandi í Svíþjóð vinna nú að undirbúningi þróunarverkefnis sem byggir á íslenskri fyrirmynd og miðar að bættu verklagi og samvinnu í heimilisofbeldismálum.

Guðríður Bolladóttir, formaður Samstarfsteymis velferðarráðuneytisins vegna heimilisofbeldis, segir afar ánægjulegt að Suðurnesjamódelið svokallaða nái til nágrannalandanna enda leggi ráðuneytið ríka áherslu á þetta verklag.

„Forsaga málsins var sú að ráðuneytinu barst fyrirspurn frá sænska sendiráðinu um að hópur sænskra embættismanna hefði áhuga á að koma hingað til lands og kynna sér þverfaglegt samstarf í málum er varða heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum,“ segir Guðríður.

„„Heimsóknin var afar vel heppnuð og árangursrík og sænsku gestirnir okkar tóku þá ákvörðun áður en þau fóru af landi brott, að hefja þróunarverkefni samkvæmt íslenskri fyrirmynd frá Suðurnesjunum og Reykjavík, um samvinnu í málum er snúa að heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum milli heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, lögreglu, saksóknara og Barnahúss.“

Í miðbæ Gautaborgar við Hamnkanalen.
Í miðbæ Gautaborgar við Hamnkanalen. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hefst í byrjun október

Sænski hópurinn var sem áður segir frá Vestur-Gautlandi en þar er m.a. borgina Gautaborg að finna. Svæðið tekur til 49 sveitarfélaga og þar búa um 1.660.000 manns. Með í för voru dómarar, saksóknarar, lögreglumenn, heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk úr félagsþjónustu og barnavernd.

Hópurinn kom hingað í lok maí mánaðar á þessu ári og fékk kynningar frá velferðarráðuneytinu, Barnaverndarstofu, Barnahúsi, embætti ríkislögreglustjóra, embætti ríkissaksóknara, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, félagsþjónustu Reykjanesbæjar, lögreglunni á Suðurnesjum, lögreglunni höfuðborgarsvæðinu og einnig frá formanni dómstólaráðs.

Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins í Svíþjóð síðustu mánuði og segir Guðríður að það muni hefjast formlega í byrjun október mánaðar.

„Í kjölfar heimsóknarinnar hafa Svíarnir lýst yfir áhuga á frekari samstarfi við velferðarráðuneytið og okkar samstarfsaðila svo við munum fylgjast vel með þróun mála þar ytra og það verður lærdómsríkt og áhugavert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert