Al Gore hafði samband og vildi nota myndina

Kerstinar Langenberger bjó hér á landi í sjö ár og …
Kerstinar Langenberger bjó hér á landi í sjö ár og kemur árlega til Íslands. Árni Sæberg

Ljósmynd sem Kerstin Langenberger tók á Svalbarða í sumar af horuðum ísbirni hefur farið eins og eldur í sinu um netið undanfarna daga og hafa fjölmargir erlendir fjölmiðlar haft samband við hana og fjallað um myndina. Þá hafði Al Gore, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum og talsmaður í loftlagsmálum, samband við hana og vildi nýta myndina í umfjöllun sinni um þessi málefni.

Bjó í sjö ár á Íslandi

Kerstin er nú staðsett á Íslandi, en hún bjó í sjö ár hér á landi og lærði meðal annars í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri fyrir um 10 árum. Síðan ákvað hún að færa sig í meira pólarlandslag og hefur undanfarin fjögur ár unnið sem leiðsögumaður á Svalbarða á sumrin og Suðurskautslandinu á veturna.

Í sumar var Kerstin í fjóra mánuði á Svalbarða þar sem hún leiðsagar fólk um á litlum skoðunarbátum og sýnir því dýralífið. Hún segir að birnan sem náðist á mynd sé dæmi um ísbjörn í sínu versta ásigkomulagi. „Oftast sér maður venjulegan björn,“ segir hún, en bætir við að það sé ekki algengt að sjá birnur í góðum holdum sem séu undirbúnar fyrir að fæða húna.

Brotthvarf íssins hefur áhrif á fæðuöflun

Kerstin, sem tekur fram að hún sé hvorki vísindamaður eða sérfræðingur í líffræði ísbjarna, segir að það sé hennar kenning eftir að hafa eytt miklum tíma á þessum slóðum að loftlagsbreytingar séu að hafa mikil áhrif á ísbjarna birnur. Helsta fæðuöflun ísbjarna er með veiðum á ís, meðal annars seli. Undanfarin ár segir Kerstin að hafísinn við Svalbarða hafi minnkað mikið. Karlkynsbirnirnir geta haldið sig allt árið á ísnum, en birnurnar þurfa að fara í land þegar þær fæða húnana og leggjast í híði meðan þeir þroskast aðeins upp.

Við tekur um þriggja ára uppeldi á tveimur húnum í hvert skipti. Kerstin segir að í flestum tilfellum deyi allavega einn húnn fyrsta árið og þá sjáist sjaldan birnur með báða húnana á seinni árum uppeldisins. Rekur hún það til þess að birnurnar nái ekki að veiða sér eða húnunum til matar vegna skorts á hafís til að veiða á. Þannig segir Kerstin að ísbirnir séu flokkaðir eftir holdafari á skalanum 1 til 5, þar sem 1 sé það sem myndin sýni, en 5 mjög feitt dýr. Segir hún að flest dýrin séu á bilinu 2 til 3, en mjög fá dýr 4 eða 5. Flest kvendýrin séu nokkuð ræfilsleg og séu á bilinu 2 til 3.

Dregur í efa að stofninn sé stöðugur

Vísindamenn hafa sagt að þeir telji stofninn nokkuð stöðugan á Svalbarða að sögn Kerstin, en hún dregur það í efa. Þannig hafi engin alvöru talning farið fram og hún segir það skjóta skökku við að stofn geti verið stöðugur ef kvendýrin eru mjög margar horaðar og eru að missa húnana sína.

Ljósmyndin hefur sem fyrr segir farið sem eldur í sinu um netið og hafa tugir þúsunda bæði deilt og líkað við myndina á Facebook-síðu Kerstinar.  Hún segir gott að myndin hafi komið þessari umræðu af stað, því sjálf segir hún augljóst að hlýnun eigi sér stað sem skaði dýralífið á þessum slóðum.

Erlendir fjölmiðlar og Al Gore sýnt myndinni áhuga

Kerstin kom heim frá Svalbarða í gær, en hún ætlar að vera á Íslandi fram í nóvember. Segir hún að að sér finnist gott að vera hér á landi, enda sé gaman að ferðast hér og þá sé hún alltaf uppi með myndavélina. Segist hún vonast til að komast í góða ferð hér á landi áður en hún fer á brott, þótt síðast hafi orðið smá uppnám vegna þess. Þrátt fyrir að líka vel hér á landi ákvað hún að færa vinnuna lengra nær pólunum eins og fyrr segir. „Ég elska þessi svæði og náttúran er ótrúlega flott, þarf að komast út aftur og aftur,“ segir hún um landslagið hér á landi, í Norður-Noregi og á pólarslóðum.

Fljótlega eftir að hún kom til landsins og í símasamband fór síminn þó að hringja og skilaboðin að dælast inn á samfélagsmiðlum. Segir hún að meðal annars hafi hún rætt við National Geographic, Huffington Post og Daily Mirror, sem allir vildu fá að nota myndina og ræða við hana. Samtals hafi viðtölin verið á annan tug. Þá fékk hún póst frá Al Gore, sem hefur undanfarin ár barist mikið á sviði loftlagsmála og verið ötull talsmaður þess að dregið væri úr losun gróðurhúsalofttegunda.  „Ég bjóst aldrei við að fá tölvupóst frá Al Gore,“ segir Kerstin og hlær. Hann hafi viljað nota myndina í fyrirlestra sína um málefnið og segir Kerstin að það sé mikill heiður fyrir sig. „Við sjáum til með hvernig þetta fer,“ segir hún, en ljóst er að myndin hefur vakið fjölda manns víða um heim upp til umhugsunar um loftlagsmál.

For tourists and wildlife photographers, the main reason to come to Svalbard is to see polar bears. And yes, usually we...

Posted by Kerstin Langenberger Photography on Thursday, 20 August 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert