Samþykkti atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun

Fjölmennur baráttufundur var í Háskólabíói í gær.
Fjölmennur baráttufundur var í Háskólabíói í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Trúnaðarmannaráð SFR - Stéttarfélags í almannaþjónustu samþykkti einhljóða á fundi í dag að boða til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun félagsins. Kosning hefst á næstunni og á að ljúka 27. september. Hægt væri að kalla til verkfalls þegar 13. október.

Verði verkfallið að veruleika mun það valda talsverðri truflun m.a. á Landspítala þar sem 1033 félagsmenn SFR vinna í 732 stöðugildum samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Félagið hefur höfðað mál til þess fá hnekkt mati spítalans á því hvaða störf teljast varða öryggi og heilsu á spítalanum en þar eru undir yfir þrjú hundruð störf sem félagið telur sum hver ekki varða öryggi né heilsu og spítalinn telji t.d. ýmis skrifstofustörf meðal þeirra.

SFR hefur verið í samfloti með Landssambandi lögreglumanna og Sjúkraliðafélaginu og hafa félögin krafist sömu kjarabótar og hjúkrunarfræðingum voru dæmdar í gerðardómi. Nokkuð ber á milli þeirra krafna og þeirra kjara sem samninganefnd ríkisins hefur boðið.

Innan Sjúkraliðafélagsins hafa kröfur um aðgerðir einnig gerst háværar en lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert