Hefur haft víðtækar afleiðingar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is/Kristinn

„Við vorum fyrst og fremst að kortleggja stöðuna. Hvaða áhrif eða afleiðingar þetta hefur haft og þær virðast vera furðu víðtækar þó við vitum ekki hversu varanlegt það verður. Víða hafa menn ákveðið eða hugleitt það að hætta að selja íslenskar vörur eða afboða ferðir til Íslands. Síðan höfum við fengið að heyra að þetta geti jafnvel haft áhrif á stóra fjárfestingasamninga.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is í dag spurður um ákvörðun Reykjavíkurborgar að útfæra sniðgöngu á ísraelskum vörum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti í dag að tillagan yrði dregin til baka og endurskoðið með þeim hætti að aðeins yrði skírskotað til svæða sem Ísrael hernemur.

„Það er að minnsta kosti ljóst að þetta getur haft töluverð áhrif og að því er virðist meiri áhrif heldur en margt það sem stundum hefur verið talið skaðlegt viðskiptahagsmunum,“ sagði Sigmundur. Málið væri horft alvarlegum augum og utanríkisráðuneytið hafi sent frá sér yfirlýsingu í gær um ákvörðunin væri ekki í samræmi við lög og alþjóðasamninga.

„Þar á bæ hafa menn reynt að svara eins og kostur er fyrirspurnum erlendra fjölmiðla og frá samtökum og öðrum sem þangað hafa leitað. Í morgun þegar ég mætti í ráðuneytið beið mín mikið magn tölvupósts frá einstaklingum og félagasamtökum. Þannig að við munum reyna að svara því eins og við mögulega getum,“ segir hann.

Reynt sé þannig að koma réttum upplýsingum á framfæri með formlegum tilkynningum líkt og frá utanríkiráðuneytinu og bregðast við þegar leitað sé eftir upplýsingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert