„Borgarstjórn má ekki sópa þessu undir teppið“

Bryndís Silja Pálmadóttir ásamt Palestínskum börnum en hún hefur verið …
Bryndís Silja Pálmadóttir ásamt Palestínskum börnum en hún hefur verið sjálfboðaliði þar í samtals níu mánuði.

Þær Bryndís Silja Pálmadóttir, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sigríður Gyða Héðinsdóttir eru allar ungar konur sem hafa unnið sem sjálfboðaliðar í Palestínu. Þær segja ákvörðun borgarstjórnar um að draga tillögu um sniðgöngu á Ísraelskum vörum tilbaka hafi verið vonbrigði þar sem þær hafi séð með eigin augum þann hræðilega raunveruleika sem fólk í Palestínu býr við. 

Mikilvægt að borgarstjórn vinni næstu skref vandlega

„Að okkar mati var samþykktin afar jákvæð aðgerð,“ segir Bryndís. „Borgarstjórn ákvað að gera það sem í hennar valdi stóð til þess að segja við ísraelsk stjórnvöld að framferði þeirra við Palestínumenn sé ekki lengur liðið. Þó að þetta séu að margra mati róttækar aðgerðir eru þau viðbrögð við áratuga mannréttindabrotum þar sem að alþjóðalög hafa verið virt að vettugi.“ Hún segir það vonbrigði að borgarstjórn hafi dregið tillöguna tilbaka.

„Einkum og sér í lagi eftir ferðir okkar í Palestínu þar sem við sáum erfiðan raunveruleika fólks með eigin augum. En að sama skapi opnaði þetta á þarfa umræðu sem við fögnum. Við vonumst innilega eftir því að borgarstjórn finni aðrar leiðir til þess að sýna það í verki að Reykjavíkurborg standi ekki á sama um þau brot sem eiga sér stað daglega í Palestínu. Það er mikilvægt að halda umræðunni á lofti og beita Ísrael þrýstingi til þess að fara að lögum.“ Þær telja að tillagan hafi opnað umræðu um glæpi Ísraelsríkis og ástandið í Palestínu. „Við höfum þó áhyggjur af því að með því að draga tillöguna til baka telji ísraelsk stjórnvöld að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki framferði þeirra og brot á alþjóðalögum. Það er því afar mikilvægt að borgarstjórn vinni næstu skref vel og vandlega.“

Bryndís Silja Pálmadóttir, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sigríður Gyða Héðinsdóttir …
Bryndís Silja Pálmadóttir, Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sigríður Gyða Héðinsdóttir voru staddar á pöllum borgarstjórnarfundar í gær til að styðja við frjálsa Palestínu. Hér sést Bryndís fyrir miðju. Mbl.is/ Styrmir Kári

Stjórnmálamenn sýndu vanþekkingu á málefninu

„Við mættum á pallana í gær sem stuðningsmenn frjálsrar Palestínu í þeim tilgangi að sýna borgarstjórn að við væntum þess að næstu skref verði tekin. Við vildum heyra hvað borgarstjórn hyggðist gera og vonuðumst eftir því að þrátt fyrir að sniðganga á Ísraelskum vörum væri dregin til baka væri málið ekki til lykta leitt,“ segir Bryndís en hún segir þær hafa gengið út orðlausar af fundinum eftir ummæli sumra stjórnmálamanna. 

„Það að íslenskir stjórnmálamenn gangi upp í palla og æpi yfirlýsingar um að við þurfum að „biðja gyðinga heimsins afsökunar“ er algjörlega óásættanlegt. Í fyrsta lagi afhjúpa ummæli sem þessi gjörsamlega vanþekkingu þessara stjórnmálamanna á muninum á síonisma og gyðingdóm. Það er algjör vanvirðing við þá fjölmörgu ólíku gyðinga frá ýmsum löndum heimsins að setja þá alla undir sama hatt og alhæfa að þeir hafi allir sömu stjórnmálaskoðanir og lífsviðhorf. Stjórnmálamenn minnihlutans töluðu ítrekað um gyðinga í stað Ísraelsmanna og sýnir það einnig vanþekkingu þeirra á málinu. Einnig var stuðningurinn við tillöguna frá hinum ýmsu hópum gyðinga, sem og annarra hópa nokkurnvegin hundsaður á fundinum sem mestmegnis snerist um fjárhagslegan skaða. Það er skýrt að peningar virðast skipta meira máli en mannréttindi.“

Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sigríður Gyða Héðinsdóttir í Palestínu.
Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir og Sigríður Gyða Héðinsdóttir í Palestínu.

Bryndís segir að reynsla þeirra allra í Palestínu hafi veitt þeim innsýn inn í nauðsyn sniðgöngu. „Eftir að hafa kynnst fólki frá bæði Ísrael og Palestínu sem styðja sniðgöngu finnst okkur þetta afar mikilvægur málstaður. Auðvitað er hægt að flækja hlutina en Palestínumenn hafa kallað eftir sniðgöngu sem neyðarúrræði og það er mikilvægt að við hlustum á þá. Eftir að hafa séð daglega kerfisbundna kúgun og misrétti á ferðum okkar um Vesturbakkann þá finnst okkur öllum sniðganga vera einn af fáum kostum sem eftir eru.“ Hún segir það vera skýrt að það sem eigi sér stað í Palestínu miði hægt og rólega á kerfisbundinn hátt að því að reka fólk burt eða losa sig við það með öllum mögulegum leiðum. „Öllum tilraunum til þess að mótmæla er svo mætt af hörku. Það er löngu kominn tími til þess að sýna Ísrael með afgerandi hætti að brot þeirra á hinum ýmsu alþjóðalögum og mannréttindum séu ekki í boði lengur og er sniðganga sterkasta vopnið til þess.“

Íslensk stúlka skotin með stálkúlu af Ísraelska hernum

Sigríður Gyða segir að eitt það fyrsta sem hún hafi tekið eftir við komuna á Vesturbakkann var í raun og veru hversu öflugt fólk var í því að halda daglegu lífi sínu í skorðum þrátt fyrir að búa við aðskilnaðarmúra, vegatálma og skert ferðafrelsi svo dæmi séu tekin. Það er í raun aðdáunarvert að senda börn sín í skólann á hverjum degi með þá vitneskju að þau verða líklega áreitt af landtökufólki og/eða hernum en reyna engu að síður að viðhalda hversdagsleikanum í lífinu.“ Hún segir að óþægilegasta reynslan sem hún hafi orðið fyrir í Palestínu hafa verið þegar hún var skotin með gúmmihúðaðri stálkúlu af Ísraelska hernum.  

„Við ferðafélagarnir fórum á friðsamleg mótmæli sem haldin eru vikulega í bænum Bil’in á Vesturbakkanum. Þar er gengið á hverjum föstudegi, í átt að ólöglegu landtökubyggðinni Modi’in Illit sem var reist snemma á tíunda áratugnum í trássi við alþjóðalög, til að mótmæla. Eftir nokkurra mínútna göngu hóf herinn að skjóta táragasi á mótmælendur sem voru ekki nema um 20 talsins. Enginn var vopnaður né með ógnandi hegðun en engu að síður skaut herinn á okkur nokkru síðar. Ég lenti í því að verða fyr­ir skoti af gúmmí­húðaðri stál­kúlu. Kúlan fór inn að beini og þurfti ég á aðhlynningu að halda á spítalanum í Ramallah. Ferðafélagar mínir fylgdu mér þangað og vorum við allar miður okkar yfir því hvernig þar var umhorfs. Lækningatæki voru úr sér gengin og gömuÞetta fer hiklaust á lista yfir verstu upplifanir mínar en því miður er þetta daglegt brauð hjá mörgum Palestínumönnum sem neita að gefast upp og halda áfram friðsamlegum mótmælum. Á meðan að við vorum á Vesturbakkanum var 17 ára strákur skotinn með samskonar kúlu í nágrannabænum Nil’in. Hann var því miður ekki jafn heppinn þar sem að skotið hæfði hann í augað og hann missti sjónina.“ 

Bryndís myndaði handahófskennda handtöku sjö ára gamals skóladrengs.
Bryndís myndaði handahófskennda handtöku sjö ára gamals skóladrengs. Ljósmynd: Bryndís Silja Pálmadóttir

Horfði á hermenn handtaka sjö ára gamlan dreng

Bryndís bjó í borginni Hebron sunnarlega á Vesturbakkanum og smábænum Deir Isydia. „Vinna mín í Palestínu snerist í raun um tvennt. Að sýna Palestínumönnum samstöðu í friðsamlegri baráttu sinni fyrir friði og í raun þeim einföldu mannréttindum að fá að lifa. Og svo að vera útlendingur með myndavél þegar Ísraelsher og ofstækisfullt landtökufólk réðst á Palestínumenn enda er réttarkerfið alltaf, ísraelum í hag. Þá er stundum gott að vera útlendingur með myndavél, hótandi öllu illu um fjölmiðla og annað. Myndböndin mín eru margir klukkutímar á lengd. Myndirnar skipta þúsundumi.“ Bryndís segir barnahandtökur algengar í Palestínu og þá sérstaklega í Hebron en hluti miðbæjarins þar hefur hægt og rólega verið tekinn yfir af landtökufólki og tilheyrir nú Ísraelsríki.

 „Þar ríkir nú algjör aðskilnaðarstefna. Á hverjum degi sátum við og fylgdumst með hundruðum barna sem þurftu að ganga í gegnum ísraelska eftirlitsstöð í eigin hverfi í þeim tilgangi að komast í skólann. Karlmenn eru stoppaðir og niðurlægðir fyrir framan börnin sín, hermennirnir áreittu stundum börnin en yfirleitt stóðu þeir bara þarna inni í miðju hverfinu og horfðu á þau illum augum. Næstum því á hverjum degi í tvo mánuði drekktu þeir svo öllum barnaskaranum, og mér, í táragasi.“ Hún segir barnahandtökur vera það viðbjóðslegasta sem hún hefur upplifað en þá voru börn ásökuð um steinakast gripin æpandi og grátandi og handtekin. Myndband Bryndísar af einu atvikinu er að finna hér að neðan en hún tók það þegar hinn sjö ára gamli Oday var dreginn í burtu æpandi af hræðslu af Ísraelskum hermönnum. 

„Ég var að horfa á börnin rölta í skólana sína og allt var með kyrrum kjörum. Einstaka steinn flaug framhjá og kom ekki einu sinni nálægt eftirlitsstöðinni. Skyndilega hlaupa í kringum sjö hermenn og landamæralögreglumenn niður götuna í Palestínsku hverfinu í fullum skrúða. Barnahópurinn splundrast og ég sé sjö ára barn dregið upp götuna, borið á milli tveggja hermanna sem sjálfir virtust hræddir. Spiderman skólataska drengsins var flækt um bakið á meðan hann reyndi að losa sig. Ég æpti og öskraði á þá en enginn hlustaði á mig. Kennari litla drengsins reyndi að draga barnið úr höndunum á hermönnunum og var handtekinn fyrir vikið. Þið getið ímyndað ykkur ef þetta kæmi fyrir íslenskt barn. Það væri stórfrétt ef að tveir lögregluþjónar gerðu þetta við íslenskt barn í öðrum bekk á leiðinni í skólann.“

Heimili tólf manna fjölskyldu rifið niður

Sigrún Björg seg­ir eina af eft­ir­minni­leg­ustu upp­lif­un­un­um frá Vest­ur­bakk­an­um hafa verið þegar hún fylgd­ist með hvernig Ísra­els­her reif niður heim­ili í Aust­ur- Jerúsalem og ísraelsk stjórnvöld fyr­ir­skipuðu að heilt hverfi, sem samanstóð af Palestínumönnum, yrði rifið niður svo hægt væri að byggja Ísra­elsk­an þjóðgarð. ,,Að hlusta á börnin lýsa þvi hvernig þau vöknuðu upp um nóttina við ísraelska hermenn sem bönkuðu rifflunum á gluggana þeirra og sögðu þeim að drífa sig út, til þess eins að mæta þar jarðýtum, hundruðum hermanna og hunda sem rifu niður heimili þeirra, er frásögn sem maður gleymir ekki."

Hún rifjar upp að hafa eytt heilli nótt fyr­ir utan heim­ili tólf manna fjöl­skyldu í hverfinu. „Þau voru búin að pakka sam­an eig­um sín­um og biðu þess að her­inn kæmi og rifi niður heim­ili þeirra. Þau gátu ekk­ert gert. Ang­ist­in og ör­vænt­ing­in var væg­ast sagt hrylli­leg og fjöl­skyldufaðir­inn spurði stöðugt hvað þau hefðu gert rangt. Svarið var ekk­ert. Þau höfðu ná­kvæm­lega ekk­ert gert rangt og gátu ekk­ert gert til að breyta ör­lög­um sín­um. Faðir­inn fór að segja okk­ur sög­ur af heim­il­inu þeirra, sem hafði verið í eigu fjöl­skyldu hans nokkr­ar kyn­slóðir. Vegg­ir eru ekki bara vegg­ir, sagði hann. Þarna hafði hann fylgst með börn­un­um sín­um taka fyrstu skref­in sín og vaxa úr grasi og brátt yrði það rifið niður á ómennsku­leg­an hátt fyr­ir fram­an aug­um þeirra og þau gerð heim­il­is­laus.“ 

Bryn­dís seg­ir að sér finn­ist það hafa verið stórt skref hjá borg­inni að hafa loks­ins tekið af skarið til að gera eitt­hvað rót­tækt til að sýna Palestínu­mönn­um að okk­ur sé ekki sama. „ Það er ekki nóg að fara fögr­um orðum um frið og rétt­læti þegar fimm hundruð börn eru myrt á ein­um mánuði. Ég treysti borg­ar­stjórn fyr­ir því að vinna vel úr mál­un­um og sópa þessu ekki und­ir teppið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert