Fjöldi tækifæra í tölvuleikjagerð

Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir hefur starfað fyrir DICE frá árinu 2012.
Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir hefur starfað fyrir DICE frá árinu 2012. EA DICE

Ekki aðeins forritarar eða hönnuðir geta unnið við gerð tölvuleikja og fólk ætti að prófa sig áfram með að búa til leiki með ókeypis vélum og hugbúnaði sem er til. Þetta segir Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir, yfirframleiðandi stórleiksins „Star Wars: Battlefront“, í umfjöllun tímaritsins Fortune um hana.

„Star Wars: Battlefront“ er líklega sá tölvuleikur sem beðið hefur verið eftir með hve mestri eftirvæntingu á þessu ári en hann kemur út 17. nóvember í Bandaríkjunum og tveimur dögum síðar í Evrópu. Leikir af þessari stærðargráðu jafnast fyllilega á við Hollywood-myndir að kostnaði og umfangi jafnvel þó að umfjöllunin um þá sé mun minni en um kvikmyndaiðnaðinn. Þannig gerir tölvuleikjarisinn EA opinberlega ráð fyrir að selja 9-10 milljónir eintaka af leiknum.

Eins og fram kom í viðtali mbl.is við Sigurlínu í vor er hún yfirframleiðandi leiksins hjá sænska þróunarstúdíóinu DICE. Fortune fjallaði um konuna að baki leiknum á vefsíðu sinni í vikunni. Þar kemur fram að nú sé verið að fínpússa leikinn og það þýði tólf klukkustunda langa vinnudaga og segir Sigurlína að enginn dagur sé dæmigerður.

„Ég fer úr því smá í það stóra mjög hratt. Ég sit fundi þar sem umfjöllunarefnið er að Þúsaldarfálkinn (e. Milleninum Falcon) sé 35 metra langur og að það sé vandamál fyrir okkur út af borðunum [í leiknum],“ segir Sigurlína.

Hún bendir á að tölvuleikjaiðnaðurinn hafi vaxið svo mikið að þar séu tækifæri fyrir fjölda starfstétta.

„Ég hvet fólk til þess að verja tíma í að leika sér, búa til frumgerðir og búa til leiki með öllum þessum ókeypis vélum og hugbúnaði sem er til. Flestir skilja það sem svo að þú þurfir að vera forritari eða hönnuður til að búa til tölvuleiki en það eru svo mörg svið í dag. Þú getur verið lögfræðingur og unnið að tölvuleikjum. Þú getur verið hagfræðingur og unnið við tölvuleiki. Það eru svo mörg hlutverk og svo margar leiðir fyrir þig til að verða hluti af því að búa til tölvuleiki,“ segir Sigurlína.

Umfjöllun Fortune um Sigurlínu

Fyrri fréttir mbl.is:

Vinnur í Stjörnustríðsheiminum

„Spilum núna Stjörnustríð!“

Star Wars: Battlefront er einn þeirra leikja sem beðið er …
Star Wars: Battlefront er einn þeirra leikja sem beðið er eftir með hve mestri eftirvæntingu á þessu ári. EA DICE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert