Fleiri njóta stuðnings hunds í flugi

Í reglum á vef Icelandair kemur ekki fram að hundur …
Í reglum á vef Icelandair kemur ekki fram að hundur sem ferðast með viðskiptavini og veitir honum andlegan stuðning þurfi að vera bundinn eða í búri. Júlíus Sigurjónsson

Færst hefur í vöxt að viðskiptavinir Icelandair ferðist með hunda sem veita þeim andlegan stuðning. Aðallega er um bandaríska ríkisborgara að ræða og gilda sérstakar reglur um ferð viðskiptavinarins. Þarf hann meðal annars að skila vottorði og dvelja á afmörkuðu svæði í flugstöðinni á meðan hann bíður eftir tengiflugi sínu.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir aðspurður að um sé að ræða tvö til þrjú tilfelli á mánuði og starfsfólkið orðið vart við að þessum tilfellum fari fjölgandi.

Segir hann einnig að gerðar séu ráðstafanir ef aðrir farþegar geta af einhverjum ástæðum ekki hugsað sér að hafa hundinn nálægt sér. Þá séu gerðar ráðstafanir til að mæta þörfum fólksins og hafa farþegar meðal annars verið færðir til í vélum flugfélagsins.

Hundur sem veitir andlegan stuðning fylgir meðal annars einstaklingum sem glíma við andleg veikindi og/eða geðsjúkdóma. 

Kom inn í vélina með stóran hund 

mbl.is barst ábending um farþega sem flaug nýlega með Icelandair frá París til Keflavíkur. Þegar farþeginn var á leið í gegnum öryggisathugun á flugvelli í París tók hann eftir manni með stóran hund í bandi og þótti honum ljóst að ekki var um blindrahund að ræða.

Þegar farþeginn var kominn um borð í vélina á leið til Íslands kemur maðurinn með hundinn inn í vélina og sest í gluggasæti. Hundurinn sat aftur á móti óbundinn á gólfinu.

Fljótlega hafa hjón við hlið hans sætaskipti, enda varð konan í miðjusætinu augljóslega óróleg vegna hundsins. Seinna í fluginu var maðurinn sem hafði hundinn meðferðis færður framar í vélina og staðfesti flugfreyja Icelandair við farþegann að um væri að ræða viðskiptavin sem ferðaðist með hund sem andlegan stuðning. 

Þurfa ekki að vera bundnir eða í búri

Í reglum á vef Icelandair kemur ekki fram að hundur sem ferðast með viðskiptavini og veitir honum andlegan stuðning þurfi að vera bundinn eða í búri. Þá eru ekki upplýsingar um hvernig aðrir farþegar geti eða eigi að bregðast við, hafi þeir ef til vill ofnæmi fyrir hundum eða glími við ofsahræðslu.

Viðskiptavinir sem ferðast með hund sem veitir andlegan stuðning verða að láta Icelandair vita af því með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara.

Viðkomandi farþegi má aðeins dvelja í þrjár klukkustundir í Leifsstöð og er honum ekki heimilt að fara með dýrið út fyrir flugstöðina. Geri hann það þarf dýrið að dvelja í sóttkví í fjórar vikur. Svipaðar reglur gilda um blindrahunda og hunda sem veita andlegan stuðning. 

WOW air flytur einnig hunda af þessu tagi. Gilda svipaðar reglur og hjá Icelandair. 

Hundarnir geta gert þarfir sínar á vellinum

Aðeins einn hundur sem veitir andlegan stuðning má vera um borð í hverri vél og þá má farþegi aðeins hafa eitt dýr meðferðis til að veita því stuðning. Farþegi verður að skila eyðublaði sem útfyllt hefur verið af viðeigandi heilbrigðisstarfsmanni.

Icelandair áskilur sér rétt til að hafa samband við starfsmanninn til að sannreyna að upplýsingarnir sem koma fram á vottorðinu séu réttar. Nái Icelandair ekki sambandi við starfsmanninn er ekki hægt að taka á móti dýrinu. Þá má vottorðið ekki vera eldra en árs gamalt.

Dýrið verður að sitja á gólfinu fyrir framan sæti farþegans. Farþegi þarf ekki að greiða fyrir að taka hundinn með sér. Viðskiptavinir með hunda af þessu tagi þurfa að dvelja á afmörkuðu svæði á flugvellinum á meðan þeir bíða eftir tengiflugi og er þeim fylgt til og frá svæðinu af starfsmanni Icelandair. Aðstaða er á flugvellinum fyrir hunda til að gera þarfir sínar þar sem dýrin mega ekki fara út fyrir flugvöllinn.

Færst hefur í vöxt að viðskiptavinir Icelandair hafi hund meðferðis …
Færst hefur í vöxt að viðskiptavinir Icelandair hafi hund meðferðis sem veitir þeim andlegan stuðning. Árni Sæberg
WOW air flytur einnig hunda sem veita andlegan stuðning.
WOW air flytur einnig hunda sem veita andlegan stuðning.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert