Vilja að stjórnvöld taki á móti fleirum

Stjórnvöld reikna með því að taka á móti allt að …
Stjórnvöld reikna með því að taka á móti allt að 100 kvótaflóttamönnum á þessu ári og næsta. AFP

Félagsráðgjafar hvetja íslensk stjórnvöld til að taka á móti fleiri en allt að 100 einstaklingum á þessu ári og því næsta. Aðgerðir stjórnvalda séu þó skref í rétt átt. Íslensk stjórnvöld eru hvött til að samræma þjónustu alls flóttafólks, þeirra sem koma í boði ríkisstjórnar og þeirra sem fá viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttafólk.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Félagsráðgjafafélag Íslands hefur sent frá sér til fjölmiðla. Þar eru stjórnvöld einnig hvött til að beita sér fyrir bættum aðstæðum flóttaflóks sem býr við ómannúðlegar aðstæður utan upprunaríkis síns og gera allt sem í valdi þeirra stendur til að koma í veg fyrir mannréttindabrot.

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

Samkvæmt mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna voru um tuttugu milljónir manna á flótta í lok síðasta árs og hafðist meirihlutinn við í þróunarlöndum. Rúmlega helmingur hópsins var undir 18 ára aldri og aldrei fyrr höfðu fleiri börn flúið heimaland sitt. Á undanförnum mánuðum hefur straumur flóttafólks aukist mikið og hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt Evrópuríki til að bregðast hratt við enda eykst neyðin dag frá degi.

Félagsráðgjafafélag Íslands tekur undir með samtökum félagsráðgjafa um allan heim sem senda nú ákall til stjórnvalda um að koma flóttafólki strax til aðstoðar með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi. Félagsráðgjafar í Evrópu hafa lagst á eitt með félagasamtökum og sjálfboðaliðum til að tryggja flóttafólki neyðaraðstoð, fæði og húsnæði, og eftir föngum að veita félagsráðgjöf og stuðning.

Íslensk stjórnvöld kynntu áætlun sína í málefnum flóttafólks þann 20. september síðastliðinn en þar er gert ráð fyrir að tekið verði á móti allt að 100 einstaklingum á þessu ári og því næsta. Félagsráðgjafafélag Íslands telur þessar aðgerðir mikilvægt skref í rétta átt en hvetur stjórnvöld til að skoða möguleika á að taka á móti fleira flóttafólki. Félagið hvetur jafnframt íslensk stjórnvöld til að hefja strax undirbúning og kortlagningu þeirra verkefna sem framundan eru til að flýta fyrir móttöku flóttafólks. Jafnframt hvetjum við stjórnvöld til að samræma þjónustu alls flóttafólks, þeirra sem koma í boði ríkisstjórnar og þeirra sem fá viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttafólk. Síðast en ekki hvetur Félagsráðgjafafélag Íslands íslensk stjórnvöld til að beita sér fyrir bættum aðstæðum flóttafólks, sem býr við ómannúðlegar aðstæður utan upprunaríkis síns, og gera allt, sem í valdi þeirra stendur, til að koma í veg fyrir mannréttindabrot.

Félagsráðgjafar hafa verið í lykilhlutverki í vinnu með flóttafólki um áratugaskeið og hefur fagdeild fjölmenningarfélagsráðgjafa markvisst byggt upp reynslu og þekkingu í vinnu með flóttafólki og hælisleitendum. Félagsráðgjafar á Íslandi eru reiðubúnir til leggja sitt af mörkum til að aðstoða stjórnvöld og sveitarfélög við móttöku þessara hópa um land allt. Félagsráðgjafar hvetja stjórnvöld til að hafa víðtækt samráð við fagstéttir, félagasamtök, fræðasamfélagið og flóttafólkið sjálft. Einnig að leitað verði leiða til að miðla þeirri fagþekkingu sem fyrir hendi er til að móttaka flóttafólks verði stjórnvöldum, landi og þjóð, til heilla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert