Snýst ekki um að kaupa atkvæði

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, nýkjörinn varaformaður Heimdalls og Albert.
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, nýkjörinn varaformaður Heimdalls og Albert. mbl.is

Á þriðjudaginn var Albert Guðmundsson kosinn formaður Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík.  Al­bert fékk 312 at­kvæði en Hörður Guðmundsson, mótframbjóðandi hans 306 at­kvæði.

Töluverð umræða hefur myndast um framboðin og kosninguna sjálfa síðustu daga en í gær birtist á vef Nútímans grein eftir Gísla Gautason þar sem hann gagnrýnir kosningafyrirkomulag Heimdallar og lýsir því hvernig hann kaus í kosningunum eftir að vinur hans sem var í framboði til stjórnar bað hann um það. Gagnrýndi Gísli það m.a. að hann hafi getað skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn til þess eins að kjósa og svo strax úr honum aftur. Að mati Gísla voru margir aðrir á kjörstað þar vegna sömu ástæðna og hann, til þess að gera vini greiða.

Í kjölfar kosninganna skapaðist einnig umræða um að annað framboðið hafi sent skilaboð á framhaldsskólanema og boðið þeim hamborgara og bjór í skiptum fyrir atkvæði.

Albert og Hörður neita því báðir að þeirra framboð hafi sent skilaboð til framhaldsskólanema. Þar að auki hafna þeir því báðir að hafa „keypt“ atkvæði með boðum um mat og áfengi.

„Þetta er alltaf sami leikurinn“

Þeir kannast þó báðir við að framboð þeirra hafi „smalað“ fólki á kjörstað. „Ég held að báðir aðilar séu sammála um það þetta er bara svona í öllum opnum kosningum, eins og hjá nemendafélögum, prófkjörum og rektorskjörum, þetta er alltaf sami leikurinn, því miður,“ segir Hörður í samtali við mbl.is. „Við Albert erum báðir búnir að tala um að við vildum gjarnan sjá þetta vera málefnalegra en svona er þetta bara.“

Eins og fyrr kom fram kannast Hörður ekki við að framboðið hafi sent menntaskólanemendum SMS skilaboð. Hann kannast heldur ekki við að hafa boðið nemendum upp á hamborgara og bjór. „Það að eru alltaf menntaskólanemendur sem taka þátt í þessum kosningum. Það voru mikið af krökkum úr Verslunarskólanum í mínu framboði en í hinu var talsvert af krökkum úr Menntaskólanum við Sund. En ég veit ekkert um þessi boð um hamborgara og bjór, við vorum bara með pizzur.“

Aðspurður út í grein Gísla bendi Hörður á að hún sýni upplifun einstaklingsins. „Þetta var náttúrulega hans val, hann hefði getað fengið að fræðast meira um þetta og annað slíkt. En ég vil benda á að við Albert vorum mjög sammála um það að þetta voru mjög drengilegar og heiðarlegar kosningar og almennt mjög ánægðir. Enda munaði mjóu, aðeins sex atkvæðum.“

Eðlilegt að fá hjálp frá vinum sínum

Aðspurður hvort að ekki væri hægt að halda kosningar í Heimdalli án þessarar „smölunar“ bendir Hörður á að hún hafi alltaf verið til staðar. „En það sem er jákvætt við þetta að það er mikil eftirspurn eftir því að vera í formennsku fyrir Heimdall og þar af leiðandi myndast þessi aðsókn. Það eru fleiri að mæta á kjörstað þarna en á landsfundi og fleira hjá ýmsum stjórnmálaflokkum.“

Hörður viðurkennir að þessi mikla kjörsókn tengist að miklu leyti því að frambjóðendur fái vini og vandamenn á kjörstað. „Fólk er í framboði og hringir auðvitað í vini sína og biður það um að koma og hjálpa sér. Það er náttúrulega afskaplega eðlilegt og þeir ráða því líka hvort þeir geri þér greiða eða ekki það er enginn að þvinga neinn til neins.“

En væri ekki hægt að halda þessar kosningar án vina og kunningja og einblína á félaga Heimdallar? „Það er svosem allt hægt en svo væri gaman að sjá þetta breytast. Hvort þetta gæti farið fram á netinu eða á einhvern annan hátt. Þetta virkar smá eins og tímaeyðsla fyrir fólk en við erum báðir einstaklega þakklátir fyrir alla þá sem sáu sér fært að mæta á kjörstað,“ segir Hörður.

Á ekki að snúast um að gefa áfengi

Hörður segir að hans framboð hafi ekki boðið menntaskólakrökkum upp á bjór. „Við vorum ekki með neitt þannig í gangi. Þetta á ekki að snúast um að gefa menntaskólakrökkum áfengi og ég held að báðir einstaklingar hafi vandað sig mjög við þetta. Það voru náttúrulega veitingar í boði á mismunandi stöðum en ég held að báðir aðilar hafi passað upp á það að það væri ekki áfengi í boði fyrir fólk undir lögaldri,“ segir Hörður.

En voruð þið með bjór í boði? „Ég held að það sé alltaf partur af veitingum,“ svarar Hörður. „En ég get auðvitað bara svarað þessu fyrir mig. Þeir menntaskólakrakkar sem komu að þessu mín megin voru aðallega krakkar á lokaári Verslunarskólans og á fyrstu árunum í háskóla. En það var ekki sérlega mikið okkar megin, að gefa bjór.“

Stundaði ekki að kaupa atkvæði

Rétt eins og Hörður kannast Albert ekki við að hafa sent menntaskólanemendum SMS þar sem hamborgurum og bjór var lofað í skiptum við atkvæði. „Okkar framboð sendi ekki SMS en við vissulega grilluðum hamborgara og buðum upp á þá,“ segir hann og leggur áherslu á að framboðið hafi ekki stundað það að kaupa atkvæði. „Það er ekki neitt til í því. Þetta kemur upp eftir hverjar einustu kosningar í Heimdalli, það að kaupa atkvæði. En eins og ég hef sagt þá er ég ekkert rosalega ánægður með formið sem kosningarnar eru í.“

Aðspurður hvort að boðið hafi verið upp á bjór í kosningamiðstöð þeirra svarar Albert því játandi. „Ef maður ætlar að kynnast nýju fólki er það oft skemmtilegast í veislu eða gleðskap og það er ekkert óeðlilegt við það. En við vorum ekki að kaupa atkvæði,“ segir hann og bætir við að menntaskólanemendum hafi ekki verið boðið upp á bjór.

Snýst um að koma með ný andlit inn

Aðspurður um fyrrnefnda „smölun“ segir Albert hana eðlilega. „Maður teygir sig náttúrulega í allar áttir til að leita að stuðningi, að sjálfsögðu. Mér finnst það ekkert skrýtið og hefur það líklega gerst í flestum kosningum. Maður reynir að víkka netið og leita að nýju fólki . Þetta snýst allt um það, að koma með ný andlit inn,“ segir Albert.

Albert segir að í kosningabaráttum eins og þessari gefist oft lítill tími og var það þannig nú. Framboðin fengu aðeins viku fyrirvara fyrir aðalfundinn á þriðjudaginn þar sem kosið var. „Þá er efnt upp í eitthvert kapphlaup til að koma fólki til að kjósa. Það getur oft verið erfitt að setja þetta upp í einhverja baráttu.“

Að sögn Alberts var framboðið krefjandi. „Ég held að allir sem komu nálægt þessu hafi verið búnir að ná sér í  flensu áður en yfir lauk, þetta var bara hark. En maður á góða að, fólk sem var tilbúið að veita manni atkvæði.“

Þarf að treysta á þá sem maður þekkir fyrir

En er það nauðsynlegt að smala? Er ekki nóg að láta virka meðlimi Heimdallar kjósa? „Með kosningum í þessu formi á stuttum tíma þarf maður að treysta á þá sem maður þekkir fyrir. Formið er sett þannig upp að fyrirvarinn er lítill og þá verður þetta oft svona,“ segir Albert.

Kjörsóknin var ansi góð á þriðjudaginn en 622 greiddu atkvæði. „Stór hluti sem kom nýr inn voru strákar úr Menntaskólanum við Sund sem höfðu mikinn áhuga á að vera með. Þeir voru þarna þrír með gríðarlega stóran hóp á bakvið sig og það var gaman að sjá hvað það var stór hluti þar. Félagið græðir auðvitað á því að áhuginn á félaginu aukist og að minnt sé á það.“

Hörður Guðmundsson og Bryndís Bjarnadóttir buðu sig fram til formanns …
Hörður Guðmundsson og Bryndís Bjarnadóttir buðu sig fram til formanns og varaformanns Heimdalar. mbl.is
Kosið var í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins.
Kosið var í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson
Albert Guðmundsson, nýkjörinn formaður Heimdallar.
Albert Guðmundsson, nýkjörinn formaður Heimdallar. Ljósmynd/Håkon Broder Lund
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert