Breytir heiminum með listinni

Listamaðurinn Ólafur Elíasson trúir því að listir geti breytt heiminum og það er markmiðið með Little Sun Charge verkefninu sem miðar að því að nýta sólarorku og færa fólki rafmagn sem venjulega hefur ekki aðgang að því.

Nú hefur hann náð takmarki sínu og gott betur í fjármögnun á verkefninu en í byrjun mánaðarins hóf hann söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter og fór fram á 50.000 evrur. Nú þegar nokkrir dagar eru eftir af söfnuninni hafa um 230.000 evrur safnast eða um 33 milljónir króna. 

Því er ljóst að verkefnið verður að veruleika en það er afrakstur af samstarfi Ólafs og sólarverkfræðingsins Frederiks Ottesens. Little Sun Charge er sólarhleðslustæki sem getur hlaðið snjallsíma af hleðslu sem safnast á einum degi auk þess sem er ljós á tækinu.

Áður höfðu þeir félagar hannað Little Sun lampann sem fór í dreifingu árið 2013 en talið er að 670.000 eintök af honum séu nú í notkun hjá fólki sem ekki hefur aðgang að rafmagni. Með kaupum á lampanum hefur fólk niðurgreitt sölu hans í vanþróuðum löndum og það sama á við um Little Sun Charge.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt tæki hefur farið á markað en í kynningu á verkefninu er fullyrt að ítarlegar prófanir eigi að tryggja meiri gæði en í sambærilegum tækjum. Gert er ráð fyrir að Little Sun Charge verði komið í dreifingu í marsmánuði á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert