„Jafnréttismál skipta alla máli“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í New York, sem boðað var til vegna 20 ára afmælis Peking yfirlýsingar og framkvæmdaáætlunar um réttindi og valdeflingu kvenna sem samþykkt var á  fjórðu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995. Peking yfirlýsingin og framkvæmdaáætlun fela í sér margvíslegar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna í heiminum og liggja til grundvallar jafnréttisáætlunum um allan heim. Þetta segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Forsætisráðherra var meðal þjóðarleiðtoga sem stýrðu leiðtogafundinum og flutti þar ávarp. Í ávarpi forsætisráðherra kom fram að jafnréttismál skipti alla máli og karlmenn þurfi að taka þátt í umræðunni til jafns við konur. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið í fararbroddi í jafnréttismálum til margra ára þá sé launamunur kynjanna enn fyrir hendi hér á landi en að Ísland hafi skuldbundið sig til að ná fullu launajafnrétti árið 2022.

Forsætisráðherra fjallaði um mikilvægi þátttöku kvenna í stjórnmálum og um mikilvægi 10x10x10 átaksins sem felur í sér að hvetja karlmenn og drengi til þess að styðja jafnrétti og gerast talsmenn þess – en forsætisráðherra er einn af 10 þjóðarleiðtogum sem eru í fararbroddi átaksins.

Sigmundur Davíð þakkaði UNWomen og Kína fyrir að boða til leiðtogafundarins og minna aðildarríki Sameinuðu þjóðanna á skuldbindingar sínar frá Peking ráðstefnunni fyrir 20 árum síðan – og lagði áherslu á að framkvæmd skuldbindinga sé það sem þurfi til að ná kynjajafnrétti.

Ávarp forsætisráðherra má lesa í heild sinni hér

Fyrr í vikunni tók forsætisráðherra þátt í sérstökum fundi um jafnréttismál og í ræðu sinni á leiðtogafundi um ný Heimsmarkmið til 2030 sagði hann frá því að Íslendingar myndu auka stuðning sinn við jafnréttismál á heimsvísu, í samræmi við ákvörðun Alþingis í tengslum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert